140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:14]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni orð forseta lýðveldisins um meinta breytta stöðu þess embættis. Í því efni er rétt að rifja upp að það er hvorki að finna í greinargerð með tillögum stjórnlagaráðs né kom það heldur fram á fundi stjórnlagaráðsins með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að til stæði, eða í tillögunum fælist, að gera nokkra einustu breytingu á stöðu forsetans. Stjórnarandstaðan kaus hins vegar að sniðganga þann ágæta fund sem við áttum með stjórnlagaráði.

Í þessu efni er því engin óvissa. Forsetakosningarnar 30. júní verða engin óvissuferð nema og þá helst ef einhverjir hv. þingmenn eða einstaka forsetaframbjóðendur velja að ösla inn í þær sömu kosningar í einhverjum pólitískum rykmekki.