140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:16]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég man ekki sérstaklega til þess að hv. þingmenn í stjórnarandstöðu hafi lagt mikið upp úr lögskýringum forseta lýðveldisins, hvorki nú né fyrr. En af því að menn eru að tala um túlkun, þá spurði hv. þingmaður meðal annars að því hvað hugtakið „til grundvallar“ þýðir. Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði ágæta grein fyrir því. Ég held að kannski væri ráð, af því að ég skil þetta hugtak afskaplega vel, hvað það er að „leggja til grundvallar“, að hv. þingmaður mundi beina spurningu sinni að hv. samþingmönnum sínum, þeim Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, sem lagt hafa fram breytingartillögu sem er orðuð svo:

„Ég vil að unnið verði að breytingum á gildandi stjórnarskrá án þess að tillaga stjórnlagaráðs liggi þar til grundvallar.“

Hv. þingmenn ættu að geta svarað hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni á þingflokksfundi.