140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst ekki um það hvort ég eða einhverjir aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum mikið eða lítið álit á forseta Íslands þegar kemur að lögskýringum. Þetta snýst ekkert um það.

Ég var einfaldlega að benda á að forseti Íslands hefur vakið máls á því að breytingar þær sem stjórnlagaráðið boðar muni fela í sér umtalsverðar breytingar, ég segi nú ekki grundvallarbreytingar, á okkar stjórnskipan. Þegar það gerist að forseti talar á Alþingi með þessum hætti er að minnsta kosti óhjákvæmilegt að við leggjum við hlustir og ræðum þessi mál efnislega.

Hv. þm. Magnús Nordal segir okkur síðan að hans mat sé að forseti Íslands hafi verið á algjörum villigötum, hann hafi verið að „delera“ í þessum ræðustóli, hann hafi sagt tóma vitleysu og ekki skilið eitt eða neitt í því sem getur að líta í tillögum stjórnlagaráðs og því farið með fullkomið fleipur. Það eru auðvitað heilmikil tíðindi (Forseti hringir.) og heilmikið sagt hjá hv. þingmanni en það liggur þá að minnsta kosti fyrir.