140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað vakna nákvæmlega þær spurningar sem hv. þingmaður leggur hér upp. Ég hef alltaf talið að nálgunin í umræðunni um kjördæmaskipanina og kosningafyrirkomulag hafi verið ákaflega þröng hér á landi. Ég hef til dæmis lesið mjög ítarlega skýrslu sem unnin var af breska þinginu fyrir fáeinum árum og þar var einfaldlega sagt að ýmis atriði þyrfti að skoða í samhengi, t.d. spurninguna um jafnvægi atkvæða, spurninguna um það hvernig best sé að tryggja milliliðalaust samband milli þingmanns og kjósenda í lýðræðislegum tilgangi og að tryggja þyrfti með einhverjum hætti myndun meirihlutastjórna.

Við sjáum til dæmis að í vöggu lýðræðisins, í Grikklandi, fær stærsti flokkurinn sérstakan bónus til að reyna að tryggja að til verði meirihlutaríkisstjórnir. Við getum haft ýmsar skoðanir á þessu, en ég hefði talið að þetta væru jafngildar spurningar sem lytu að grundvallarspurningum um stjórnskipan okkar og kosningafyrirkomulag. Þess vegna finnst mér dálítið tómlegt og (Forseti hringir.) dálítið undarlegt að sjá þessa einu spurningu borna þarna upp.