140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekkert sagt til um hvað verður gert við niðurstöður þeirrar könnunar sem á að gera. Ég geri ráð fyrir að það fari svolítið eftir því hvernig þær verða, hvernig niðurstaðan verður og hvaða meiri hluti verður í þinginu þegar að því kemur því að þær spurningar sem á að spyrja verða nokkurn veginn sérvaldar til að setja inn í þetta ferli.

Ég hefði talið eðlilegt að spyrja til dæmis um neitunarvald forsetans sem hefur verið mikið til umræðu, 26. gr., synjunarvaldið. Mér hefði fundist mjög heppilegt að leita eftir áliti þjóðarinnar á því. Það er allt í lagi að koma því á framfæri að á meðan þessi stjórnskipun er við lýði og þetta regluverk um embætti forsetans þá tel ég mjög gott að hafa þetta ákvæði inni.

Ég er sammála þeim sem telja að röðin á þessu máli eða ferli öllu saman sé eitthvað skrýtin, að þessi atkvæðagreiðsla, könnunin sem eigi að fara hér af stað, að leita álits þjóðarinnar, eigi að vera síðar þegar búið verður að vinna meira í tillögum og slíkt. Ég veit ekki hvort það er einfaldlega vegna þess að menn eru búnir að segja svo oft að þjóðin eigi að fá að segja álit sitt á tillögum stjórnlagaráðs að þetta þarf að fara fram, ég átta mig ekki alveg á því. Ég hefði talið betra að þjóðin fengi að segja álit sitt á þeirri afurð sem kemur frá þinginu á einhverjum tíma. Mér þætti sérstakt ef ekki yrði látið reyna á samstöðu um það og jafnvel spara þann aur sem á að setja í þessa könnun og geyma hann í þá kosningu.