140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa mikilli ánægju með hvað þingmaðurinn er tæknivæddur. Þingmenn mættu almennt hafa tækifæri til að vera svona tæknivæddir.

Við erum í miðjum klíðum, segir hv. þingmaður. Já, eflaust erum við í miðjum klíðum, en með hvað? Mér finnst þetta ferli allt saman hafa boðið upp á ótal tækifæri til að skipta um takt í því. Þau tækifæri hafa ekki verið nýtt og þá meina ég að reyna að fá stærri hóp til fylgilags við eitthvert ferli eða einhverjar breytingar sem menn vilja gera. Ég er sjálfsagt eins og biluð plata, ég sé það á sumum þingmönnum, en það breytir því ekki að ég hef þessar skoðanir.

Það kann vel að vera að mönnum finnist ég gera lítið úr þessum spurningum. Ef menn upplifa það á þann hátt er það einfaldlega vegna þess að ég tel þær ekkert meira álitaefni en margar aðrar sem hafa komið fram, t.d. í tillögum stjórnlagaráðs. Ég ætla ekki að fullyrða neitt en mig minnir að fleiri málefni hafi komið fram á þjóðfundinum sem ég sat ásamt 999 öðrum, eða hvað við vorum mörg. Það voru ýmis önnur álitaefni uppi þannig að þetta er ekki tæmandi listi yfir þau. Eftir stendur að segja: Af hverju voru nákvæmlega þessi álitaefni valin?

Ég geri ekki lítið úr því og veit að margir, líklega meiri hluti þjóðarinnar, telja að náttúruauðlindir eigi að vera í „þjóðareign“ sem er óljóst hugtak. Ég er til dæmis einn af þeim sem vilja að það sé gert skýrara, hvernig í ósköpunum sem við förum að því. Ég er ekki viss um að það þurfi að kanna það neitt sérstaklega, ég held hreinlega ekki. (Forseti hringir.) Ég held að það þurfi ekki einu sinni að spyrja að því.