140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heimild Alþingis er alveg skýr í þessu efni. Einn eða fleiri þingmenn geta lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að setja eitthvert ákveðið mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og undirbúið það með spurningum sem spyrja á og svo er innanríkisráðuneytinu falið að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þessi rammi er skýr.

Við stöndum frammi fyrir því núna að þessi þingsályktunartillaga liggur fyrir ásamt breytingartillögu minni. Ásamt henni er ég með sjálfstæða þingsályktunartillögu í utanríkismálanefnd um sama efni, en hv. þm. Árni Þór Sigurðsson virðist sitja á henni og hleypir henni ekki í síðari umræðu í þinginu til atkvæðagreiðslu.

Svo virðist sem hér sé að myndast nýr meiri hluti í þinginu fyrir því að farið verði af stað með þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Ég fagna því svo sannarlega því að það er mikið fagnaðarefni að þessir tveir hv. þingmenn sem ég nefndi áðan hafi nú kveðið upp úr um það.

Ég vil benda þingmanninum á að t.d. í Sviss (Forseti hringir.) er kosið um 10, 15, 20 óskyld mál í sömu þjóðaratkvæðagreiðslu og þess vegna (Forseti hringir.) treysti ég Íslendingum vel til að gera slíkt hið sama.