140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni orð forseta Íslands um að mögulega ætti að setja sjávarútvegsmálin — eða kvótamálið eins og margir kalla það en þetta er náttúrlega miklu meira en það — í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef reyndar litið svo á að forsetinn hafi tekið þetta sem dæmi um málefni sem hægt væri að setja í slíka atkvæðagreiðslu. En áður en það yrði gert yrði að sjálfsögðu að vera búið að útlista mjög vandlega um hvað væri verið að kjósa. Ég hef svo sem aldrei fengið botn í hvernig sú spurning ætti að vera. Ég ætla að leyfa mér að segja að það er algerlega útilokað að fara með slíkt mál í þjóðaratkvæði nema fyrir liggi mjög skýrar spurningar, mjög skýrir valkostir: Það er ekki hægt að spyrja: Ertu á móti kvótakerfinu eða með því? Viltu hafa það eða ekki? vegna þess að þá verður líka að svara hvað kemur í staðinn eða hvernig það á að líta út o.s.frv.

Ég velti líka fyrir mér að tillögur stjórnlagaráðs eru að mörgu leyti mjög almenns eðlis, þar eru greinar sem er kannski erfitt að láta hreinlega ganga upp, eins og jafnan rétt til andlegrar og líkamlegrar heilsu, svo eitthvað sé nefnt. Það getur verið erfitt fyrir hvaða stjórnvöld sem er að reyna að uppfylla slíkar kröfur ef þær eru ekki settar inn í einhvern ramma eða útskýrðar betur en þarna er gert. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þá sé eðlilegt að í stjórnarskrá, á sama hátt og talað er um dýravernd í tillögum stjórnlagaráðs, sé líka kveðið á um að jafna rétt allra Íslendinga til húshitunar, að kostnaður við að hita og lýsa heimili sé jafn. (Forseti hringir.) Það skiptir marga Íslendinga miklu meira máli en að vernda dýr, svo ég segi það bara.