140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti fyrir mér þeim orðum hv. þingmanns um að greinar sem þessar eigi ekki heima í stjórnarskrá. Ég get hugsanlega verið sammála hv. þingmanni um það. En það er nú samt þannig að við erum að velta fyrir okkur að spyrja þjóðina ákveðinna spurninga og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar spyr til dæmis þjóðina um jöfnun atkvæðisréttar, sem þýðir að atkvæði allra Íslendinga eigi að hafa sama vægi. Ég leyfi mér að fullyrða að það er rangt og á ekki að vera þannig meðan öðrum gæðum landsins er ekki dreift jafnt. Þess vegna velti ég þessu upp og fyrst fara á þessa leið hef ég sett fram breytingartillögur sem lúta að því að spyrja nokkurra spurninga sem ganga út á aukið jafnræði allra þegna landsins til ýmissa hluta.

Svo vil ég hvetja hv. þingmann til að lesa (Forseti hringir.) 17. gr. tillögu stjórnlagaráðs, sem ég veit að hann hefur nú gert. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.“