140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil alveg hvað hv. þingmaður er að fara með því að draga þetta fram og ég er alveg sammála. Við hv. þingmaður deilum auðvitað þessum skoðunum. Rannsóknir sýna að um annarri hverri krónu af skatttekjum einstaklinga í viðkomandi landshlutum er ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er hin pólitíska umræða sem við erum í alla daga. Við þekkjum líka átökin sem eiga sér stað þegar við erum að samþykkja fjárlög, hvernig hallar á þennan eða hinn landshlutann og þar fram eftir götunum. Við erum alltaf í þessari endalausu umræðu.

Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður segir að ef ganga á svo langt að jafna atkvæðisréttinn getum við líka horft til annarra landa þar sem í því fylki sem þjóðþingið starfar eru jafnvel engir þingmenn vegna þess að stjórnsýslan er öll þar og það auðvitað vegur upp á móti þessu.

En ég verð að segja fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að mér hugnast ekki að hafa svona atriði í stjórnarskránni, þó að ég átti mig auðvitað á því sem hv. þingmaður er að benda á. Ég get að sumu leyti tekið undir með honum, það þarf auðvitað að ræða hvort jafna eigi atkvæðisréttinn og jafna aðganginn að heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu eða hvað sem það er. Þetta eru þau pólitísku dægurmál sem við erum alltaf að takast á um.