140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Varðandi dagskrá fundarins ætti hv. þm. Magnúsi Norðdahl að vera kunnugt um að sú forgangsröð sem birtist í henni dag eftir dag er ekki sú forgangsröð sem við í Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum höfum óskað eftir. Við höfum lagt á það áherslu að málefni sem mættu verða til að bæta hag heimilanna og atvinnulífsins væru sett í forgang. Þess í stað hefur ríkisstjórnin sett mál eins og þetta, eins og stjórnarráðsmálið í síðustu viku, á dagskrá. Það er ekki gert til að bæta hag heimilanna í landinu heldur til að fullnægja einhverjum, mér liggur við að segja þrjósku- og þvermóðskuhvötum.