140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Norðdahl kom upp og gerði athugasemdir við að umræða um þetta mál hefði dregist á langinn, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Þá er það vitanlega þannig og er rétt hjá hv. þingmanni að við eigum eftir að ræða alls konar tillögur, fjölmargar breytingartillögur sem hafa komið fram við þetta mál og það er alveg ljóst að sú umræða mun taka marga klukkutíma, örugglega 20–40 klukkutíma og þess vegna hljótum við og það er bara mat út frá þeim tillögum sem liggja fyrir. Við hljótum að þurfa að kryfja hverja tillögu.

Þess vegna hljótum við að gera athugasemd við það að málatilbúnaður stjórnvalda sé með þessum hætti að þetta mál, stjórnarráðsmálið, styrkir frá Evrópusambandinu séu brýnustu málin sem hér á að fara með í gegnum þingið á meðan fyrir liggur fjöldinn allur af málum sem snúa beint að því að bæta hag heimilanna. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að að minnsta kosti ellefu þingmál sem snúa beint eða óbeint að því að bæta hag heimilanna koma frá þingmönnum framsóknarmanna.