140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að gert var samkomulag um það hvaða mál yrði rætt í dag og það var vegna þess að stjórnarliðar kröfðust þess, þeir kröfðust þess að þetta mál yrði rætt en ekki málefni heimilanna eins og fulltrúar stjórnarandstöðunnar vildu að sett yrðu á dagskrá málefni sem eru miklu brýnni og varða raunverulega hagsmuni íslenskra heimila. Þegar menn segja að hér sé samkomulag um dagskrána er það einfaldlega vegna þess að stjórnarliðar þvinguðu það í gegn að þetta mál yrði rætt, þeir féllust ekki á að önnur mál yrðu rædd. Þannig er það til komið að við sitjum uppi með að ræða þetta mál í dag og engin önnur mál. Það er gert að kröfu stjórnarliða en ekki öfugt.