140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það vekur furðu mína að frú forseti skuli ekki sjá ástæðu til að gera að minnsta kosti athugasemd við það þegar þingmenn koma hingað sem hafa beitt sér gegn hverju einasta máli sem tilefni hefur verið til að senda í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili. Í hvert einasta skipti sem tækifæri var til að senda mál til þjóðarinnar beittu þessir þingmenn stjórnarliðsins sér gegn því og koma svo hingað fullir yfirlætis og saka stjórnarandstöðuna um að vera að hafa af þjóðinni einhvern rétt til að segja skoðun sína. Ég hefði talið við hæfi að virðulegur forseti gerði athugasemd við þá framgöngu stjórnarliðanna.

Af því að menn halda því enn fram að hafið sé málþóf vil ég benda virðulegum forseta á að ég hef einungis haldið eina ræðu um þetta mál, það var í fyrri umferð umræðna og er von á breytingartillögum frá mér sem marka munu mikil tímamót í umræðum um þetta mál. Ljóst er að ég og fleiri munum þurfa að fara yfir þær breytingartillögur og ég geri ráð fyrir því (Forseti hringir.) að þeir sem lagt hafa fram breytingartillögur vilji skýra þær.