140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Jú, það er þannig í fræðunum að það er talið mikilvægt að spurningarnar séu ekki gildishlaðnar og þær séu heldur ekki leiðbeinandi, þ.e. að orðalagið sé ekki þannig að ætlast sé til jákvæðs svars. Þess vegna eru spurningar oft orðaðar eftir ákveðnu kerfi.

Þessar spurningar eru það hins vegar ekki, sérstaklega þessi um persónukjör sem hv. þingmaður vísaði til enda er ekki alveg ljóst hvað átt er við. Í „meira mæli“, hvað er það? Hversu þungt á það að vega? Á það að vera að öllu leyti eða á það að vera pinkulítið meira en nú? Ég átta mig ekki á því. Ef svarið verður já í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu eða spurningavagni, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir orðaði það, þá átta ég mig ekki á því hvaða leiðbeiningar það á að gefa áframhaldandi vinnu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég skil það ekki.

Hæstv. forseti. Ég ætla mönnum ekki að villa um fyrir fólki vísvitandi eða eitthvað slíkt en auðvitað vekur það ákveðna furðu að ekki sé farið í þjóðaratkvæðagreiðslu til að spyrja spurninga með ákveðnu orðalagi sem ætti þá að vera uppistaða í málsgrein í nýrri stjórnarskrá. Það væri tiltölulega skýr þjóðaratkvæðagreiðsla, ef við tökum dæmi varðandi þjóðkirkjuna, að orða hugsanlegan texta í stjórnarskrá og spyrja: Viltu að þessi texti sé í stjórnarskrá eða ekki? — í stað þess að spyrja: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Já eða nei. Hvort viltu að það ákvæði verði jákvætt eða neikvætt? Það fylgir ekki sögunni og maður getur ekki áttað sig á því þrátt fyrir að úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslunni lægju fyrir.