140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og óska honum velfarnaðar í að íhuga þetta um 79. gr. stjórnarskrárinnar. Ég ætla aðeins að bæta við. Ef menn ætla að breyta því ferli hvernig við breytum stjórnarskrá með því að bæta í endann „bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu“ ætti fyrst að breyta stjórnarskránni á þann hátt að þá yrði sett inn í hana að það ætti að fara fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla þegar hinu hefðbundna ferli er lokið. Að mínu viti væri það rétt aðferðafræði en ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann frekar út í það.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í þá tillögu sem hefur verið lögð fram af ákveðnum þingmönnum og er í skýrslunni frá stjórnlaganefnd um heimildir til að framselja vald. Hv. þingmaður hefur rætt það hér og beint spurningum til hv. þingmanna um þetta ákvæði og þá er spurningin: Hvers vegna leggur meiri hlutinn ekki til að spurt verði um þetta í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu? Telur hv. þingmaður rétt ef af þessari þjóðaratkvæðagreiðslu verður að bæta slíkri spurningu inn í þennan spurningavagn, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kallaði það áðan, eða telur hann einfaldlega óþarft að leita álits þjóðarinnar á þessum vissulega miklu tilvonandi breytingum sem mér heyrist að meiri hlutinn ætli sér að láta verða að veruleika?