140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég fór yfir var einfaldlega þetta: Það þarf að uppfylla ákveðin skilyrði ef þjóðaratkvæðagreiðsla á að vera vel heppnuð. Það er eins og ég nefndi — þarf hún að vera ráðgefandi eða bindandi? Það er alveg skýrt í þessu, hún er ráðgefandi.

Þegar menn afgreiða hlutina eins og hv. þingmaður gerði að í fræðunum væri hægt að gera þetta á þennan hátt þá er ég ekki sammála henni. Ég var að vísa til þess að menn verða að taka afstöðu til þess hversu margir þurfa að greiða atkvæði til að niðurstaðan sé marktæk. Það tengist þriðja þættinum, sem er kynningarmálin. Síðan eru aðrir þættir sem við þurfum ekki að taka afstöðu til hér, sem sagt hverjir eigi að ákveða að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram, við skulum sleppa því en tökum þætti númer tvö og þrjú, þ.e. hversu margir þurfa að greiða atkvæði, og um kynningarmálin.

Ekki er nægilegt að segja að þeir sem hafa áhuga á því að sagt sé nei um þessi mál geri það þá. Til dæmis hefur verið mikil umræða um slagsíðu í fjölmiðlum og sitt sýnist hverjum þar um. Það er ekki sjálfgefið, gefum okkur það að hv. þingmaður væri mjög á móti öllum þessum 115 greinum, eða kannski 10 eða 20 — ég er þá að vísa til tillagna stjórnlagaráðs — jú, hv. þingmaður getur skrifað greinar eða eitthvað slíkt. En ef á að koma á almennilegri kynningu sem á að fara til almennings þarf kröftugri leið en bara það framtak hv. þingmanns eða einhvers annars einstaklings í þjóðfélaginu. Þess vegna hafa menn farið í það að reyna að styrkja já- og nei-hreyfingar þegar slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur eru.

Það tengist því líka ef fólk er ekki meðvitað um hvað verið er að kjósa um, sem getur hæglega gerst ef lítil kynning er, þá getum við setið uppi með til dæmis litla þátttöku, og einungis þeir sem þekkja málin best eða mestan áhuga hafa á þeim taki þátt. Ég er ekki viss um að það sé mjög lýðræðislegt að taka mið af slíkri kosningu.