140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum ekki sammála um þetta eins og svo margt annað. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé rétt að setja lágmark eða sem sagt að segja að það þurfi eitthvert lágmark til að þjóðaratkvæðagreiðsla sé gild. Ég hef það svo sem ekki upp á vasann en ég get síðar komið með fræðigreinar þar um.

Ef verið er að tala um hvort eigi að leggja þessar tillögur stjórnlagaráðs sem grundvöll að nýju frumvarpi geri ég ráð fyrir að fólk kynni sér það. Löng umræða hefur verið hér og ef fer sem horfir verður enn meira rætt um að þetta sé allt hið versta mál þannig að fólk mun þá væntanlega hugsa um hvort það sé rétt. Ef einhver vill stofna nei-hreyfingu gegn þessum tillögum verður náttúrlega tekið tillit til þess geri ég ráð fyrir.

Hins vegar vil ég algerlega mótmæla því að þær spurningar sem eru fram settar séu ekki gerðar á fræðilegan hátt. Það er gert. Með okkur í því starfi voru bestu sérfræðingar þessa lands í því hvernig á að semja spurningar af þessu tagi. Ég mótmæli því algerlega að hér séu ekki uppfyllt skilyrði um hvernig spurningar eru lagðar fyrir.