140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ákveða það hvaða skoðun hv. þingmaður hefur í einstökum málum. En ég held að við hljótum að vera sammála um að við þurfum að taka afstöðu til þess hvort lágmarksþátttaka eigi að vera eða ekki. Ef hv. þingmaður er á því að ekki þurfi að hafa lágmarksþátttöku þá er það bara skoðun hv. þingmanns en tæplega þurfa menn að vera ósammála um að taka þurfi afstöðu til þess, en þó veit maður aldrei.

Sagt er að kynna eigi málið, kröftug kynning komi frá Alþingi. Ég veit ekki hvernig á að framkvæma það en ég veit hins vegar að þegar við samþykktum lög á þessu kjörtímabili um þjóðaratkvæðagreiðslu tókum við ekki afstöðu til þess hvernig ætti að standa að slíkum málum. Það stendur svo sem sannarlega í fræðunum.

Mjög skiptar skoðanir eru sömuleiðis á því hvort það þurfi lágmarksþátttöku. Flestir eru samt á því að ef lítil þátttaka er — gefum okkur það að niðurstaðan sé þvert á skoðanakannanir almennt þá þykir mönnum það ekki lýðræðislegt að fara eftir skoðanakönnunum með litlu þátttökunni í staðinn fyrir skoðanakönnun sem er gerð til dæmis með því að hringja út til fólks. Gefum okkur að það væri 5% þátttaka, svo við tökum aukadæmi, og það væri fólk sem væri mjög hart í einhverju máli sem mundi samþykkja þetta en við segðum í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meiri hluti væri andvígur þeirri niðurstöðu sem væri í litlu skoðanakönnuninni. Það er auðvitað ekki lýðræðislegt. Það sér hver maður.

Það er aðeins ein spurning sem er skýr, það er fimmta spurningin. Aðrar eru mjög loðnar og er mjög auðvelt að færa rök fyrir því. Það er mjög alvarlegt ef einhverjir fræðimenn hafa komið að því og gengist við því að þetta væri eins og ætti að gera vegna þess að það er mjög auðvelt, ég geri það ekki í þessu stutta andsvari, að fara yfir það að alveg sama væri hver niðurstaðan yrði í flestum þessara spurninga, þá væru þær ekki marktækar.