140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

aðildarviðræður við ESB.

[10:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það kemur alltaf betur og betur í ljós að hæstv. forsætisráðherra býr í allt öðrum veruleika en aðrir í landinu. Það sjá það auðvitað allir að ríkisstjórnin hefur engan meiri hluta á þinginu ein og sjálf. Hún þarf hvað eftir annað að reiða sig á stuðning annarra þingmanna í öðrum flokkum. Hvers konar barnaskapur er það, hæstv. forsætisráðherra, að bjóða upp á þetta þegar fyrir liggur og hægt er að telja upp mál því til stuðnings að þessi ríkisstjórn með eins manns meiri hluta hefur ekki bolmagn á eigin bensíni til að koma málum í gegn? Það er staða málsins og þótt hæstv. forsætisráðherra haldi öðru fram skiptir það engu af því að staðreyndirnar tala sínu máli.

Varðandi þá afstöðu sem kom fram hjá hv. þingmanni og fyrrverandi ráðherra Árna Páli Árnasyni, var það alveg skýrt í því viðtali sem var við hann í fréttunum í fyrradag að hann telur ástæðu til að skoða hvort fara eigi með aðildarviðræðurnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í ljósi stöðu ríkisstjórnarinnar er þetta mjög merkileg yfirlýsing og það þýðir ekkert fyrir (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra að berja höfðinu við steininn.