140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

aðkoma lífeyrissjóðanna að skuldaleiðréttingu.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur tekið eitt örlítið skref í þá átt að viðurkenna kostina við leiðréttingu lána, kosti sem ég held að flestir séu búnir að gera sér grein fyrir. Hún fellur reyndar aftur í þá gryfju að tala um 200–300 milljarða kr. kostnað við þær tillögur sem við lögðum fram 2009. Sá kostnaður hefði ekki fallið á ríkið vegna þess að þá hafði ríkið þetta í hendi sér, þá var ekki búið að skipta upp bönkunum og hægt var að færa öll lán heimilanna yfir í Íbúðalánasjóð með miklu meiri niðurfærslu en raun varð. Það var að sjálfsögðu fullkomlega réttlætanlegt að gera það enda voru fasteignalán á þeim tíma mjög lágt metin. Það tækifæri fór því miður forgörðum en vonandi er þetta örlitla skref hjá hæstv. forsætisráðherra til marks um það hún verði tilbúin að ræða lausnir á skuldamálum heimilanna. Við vorum tilbúin að ræða (Forseti hringir.) hvaða lausnir sem er á sínum tíma og höfum verið það. En hæstv. forsætisráðherra verður þá vonandi tilbúin til hins sama.