140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við ESB.

[10:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Hér hafa orðið töluverð pólitísk tíðindi. Nú hefur hæstv. umhverfisráðherra lýst þeirri skoðun sinni að kjósa beri um áframhald að viðræðum við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili samhliða næstu þingkosningum. Það er auðvitað heilmikið fólgið í því enda væri það furðulegt ef forustumenn Vinstri grænna væru harðari á því en þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem lýst hafa skoðun sinni í þessu máli að halda áfram þeirri vegferð sem stendur svo augljóslega þvert gegn hagsmunum Íslands. Rétt eins og hæstv. umhverfisráðherra lýsti er mjög erfitt að komast að þeirri niðurstöðu í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur að heppilegt sé fyrir Íslendinga að sækja um aðild að ESB.

Frú forseti. Ég ítreka að það eru veruleg pólitísk tíðindi að hæstv. umhverfisráðherra skuli hafa látið þessi orð falla. Það þýðir að kjósa verður um aðildarumsóknina, þ.e. hvort hún verður dregin til baka eða ekki, (Forseti hringir.) á þessu kjörtímabili. Það er augljóst að það er að myndast meiri hluti fyrir því innan stjórnarflokkanna og við sjálfstæðismenn munum styðja það.