140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

stuðningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina.

[10:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Orð hæstv. umhverfisráðherra áðan vekja athygli og munu ábyggilega verða okkur í þinginu og stjórnmálaskýrendum utan þings nokkurt umhugsunarefni næstu klukkustundir og daga. Ég ætla ekki að spyrja um það heldur annað atriði sem snertir þá umræðu sem átti sér stað milli hv. þm. Ólafar Nordal og hæstv. forsætisráðherra við upphaf þessarar umræðu.

Ég ætla ekki að þræta við hæstv. forsætisráðherra um hvort í landinu sé meirihlutastjórn eða minnihlutastjórn en mér finnst hins vegar rétt að hæstv. forsætisráðherra gefi okkur í þinginu, ef hún getur, upplýsingar um stöðu í viðræðum ríkisstjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar. Eins og við munum var í upphafi þessarar viku gefin út yfirlýsing frá þingmönnum Hreyfingarinnar þar sem þau listuðu upp nokkur mál sem þau töldu mikilvægt að ríkisstjórnin hefði forgöngu um og beitti sér fyrir hið fyrsta, ekki með því að skipa nefndir eða setja málin í eitthvert langt vinnsluferli heldur með því að grípa til aðgerða. Í yfirlýsingu þingmanna Hreyfingarinnar, sem dagsett er 14. maí, var sagt að hún vænti þess að svör ríkisstjórnarinnar lægju fyrir í þessari viku. Nú er farið að halla að lokum þessarar viku og ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún gæti upplýst okkur eitthvað um hvernig þessar viðræður ganga og hvort vænta megi frekari viðræðna eða hvort þau svör sem komið hafa fram opinberlega og ekki eru mjög skýr verði svörin sem hv. þingmenn Hreyfingarinnar verða að láta sér nægja.