140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

IPA-styrkir Evrópusambandsins.

[11:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst út af því sem hv. þingmaður nefndi um að ESB-málin héldu öðrum málum í gíslingu í þinginu, ég veit ekki hvað hv. þingmaður á við með því. Mér er fullkunnugt um það, og kannski er engum kunnugra um það en mér, að hv. þingmaður er á móti aðild að Evrópusambandinu og hefur sýnt það með margvíslegum hætti. Hann á alveg fullan rétt á þeirri skoðun að ekki eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Varðandi IPA-styrkina hef ég aldrei skilið andstöðu hv. þingmanns við þá. Hér er um verulega fjármuni að ræða sem koma til góða í atvinnulífinu og þarf ekki að endurgreiða, algjörlega óháð því hvort niðurstaðan verður aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Þetta styrkir bara atvinnulíf okkar og er ekki hluti af aðlögunarferlinu. Þingsályktunartillaga um samþykkt rammasamnings milli Íslands og ESB, sem er forsenda þess að hægt sé að fá IPA-aðstoðina, er til afgreiðslu í þinginu. Ég held að hún sé ekki endanlega afgreidd eins og hv. þingmaður nefnir en tafir á afgreiðslu hennar hafa haft í för með sér að greiðslur til verkefnis í þessa landsáætlun 2011 sem nú þegar hefur verið samþykkt af Íslands hálfu í ráðherranefnd um Evrópumál og af hálfu framkvæmdastjórnar ESB í nóvember hafa tafist. Við skulum vona að þingið beri gæfu til að afgreiða þetta mál. Ég held að það sé til framfara fyrir þau sérstaklega skilgreindu verkefni sem fá þessa IPA-styrki. Þetta eru tölfræðiverkefni Hagstofu, menntaverkefni Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, þýðingaverkefni Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins og (Forseti hringir.) kortlagning virkjana á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands svo dæmi séu nefnd.