140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:29]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessa ábendingu því hún er alveg réttmæt. Hvers vegna eiga sjómenn ekki að njóta sömu réttinda og aðrir landsmenn, aðrir launþegar í landinu? Það er ekki tengt sérstaklega sölu á fiski eða öðru. Það er tengt allri vinnu í landinu, fjarri heimilum. Til að mynda njóta flugliðar sem fljúga frá Reykjavík í innanlandsflugi þessara fríðinda, allir, og embættismenn og einstaklingar sem vinna fyrir fyrirtækin. Þess vegna er óskiljanlegt, eins og hv. þm. Pétur Blöndal segir, af hverju sjómenn njóta ekki þessara réttinda.

Það frumvarp sem liggur fyrir á Alþingi í skúffu miðar við sömu leikreglur og hjá Norðmönnum og Færeyingum. Tölurnar eru í raun í lægri kantinum miðað við leikreglur allra annarra Evrópuríkja í þessum efnum. Tölurnar sem um er að ræða varðandi fríðindi sjómanna og fiskimanna — þær eru aðrar gagnvart farmönnum — miðast við Noreg og Færeyjar og þar er ágætissátt um þær og samkomulag. Í stuttu máli er miðað við hámark sjómannaafsláttar, hann getur í undantekningartilfellum verið um 1.450 þús. kr. á ári en hingað til hefur hámarkið verið um 450 þús. kr. Um þetta snýst málið, að farinn sé réttlætisvegur, við séum í samfloti við nágrannaþjóðir okkar þar sem þetta er ekki vandamál og menn sitja við sama borð og njóta jafnræðis.