140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:56]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnarskrá eigi að tryggja svokölluð fyrstu kynslóðarréttindi fyrir alla borgara, þ.e. réttinn til að lifa öruggu lífi, kosningarrétt, réttinn til að vera varinn gegn ofbeldi og öðru slíku. Hvað varðar annarrar kynslóðar réttindi eins og réttindi til skólagöngu og annað slíkt þarf að fleiru að huga þar. Síðan eru það þriðju kynslóðar réttindi eins og að dýr hafi réttindi og annað slíkt. Ég er algerlega á móti því að þau séu í stjórnarskrá.

Ég vil ekki að talinn sé upp listi réttinda sem borgararnir hafi sem, ef þeim er framfylgt, skerði réttindi annarra borgara. Ég mun í ræðu minni síðar í dag eða nótt fjalla nákvæmlega um það hvernig ég lít á þetta. Ég verð því að segja hv. þingmanni að ég er á móti því að hlaða inn alls konar réttindakröfum inn í stjórnarskrá. Ég tel að í stjórnarskrá eigi einungis að vera atriði sem lúta að fyrstu kynslóðar réttindum og að einhverju leyti annarrar kynslóðar réttindum. Ég tel að í þeim drögum að stjórnarskrá sem hafa verið útbúin sé þetta allt of óljóst, það er verið taka eitthvað inn í stjórnarskrá sem ætti raunverulega að vera í lögum (Forseti hringir.) og því er ég mótfallinn.