140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki svarað spurningunni um skoðanakönnun, það datt úr mér. Ég er ekki á því að breyta eigi stjórnarskrá eftir niðurstöðu skoðanakönnunar. Skoðanakannanir mæla stemninguna í þjóðfélaginu á einhverjum tímapunkti og sú stemning getur gerbreyst. Tökum sem dæmi atkvæðagreiðsluna um stækkun álversins í Straumsvík í Hafnarfirði. Þar var sagt að Hafnfirðingar vildu ekki stækkun. Nú stendur yfir stækkun, henni er að verða lokið og 76% Hafnfirðinga eru fylgjandi stækkuninni. Það er því ekki hægt að breyta grunnlögunum eftir skoðanakönnunum og einhverri stemningu sem ríkir í þjóðfélaginu. Stjórnarskrá á að þróast hægt og jafnt með þjóðfélaginu en ekki taka snöggum breytingum.