140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kjarni málsins. Drögin að stjórnarskránni eru uppfull af réttindum sem er erfitt að skilgreina. Þetta eru hin svokölluðu þriðju kynslóðar réttindi. Grunnlögin verða einfaldlega að vera þannig að það sé skýrt hvenær stjórnarskrárbrot á sér stað og hvenær ekki. Ef ég missi húsið mitt af einhverjum ástæðum, er ekki með vinnu og annað slíkt og segjum að ég sofi í pappakössum, get ég þá sagt að það sé búið að brjóta á mér stjórnarskrárvarinn rétt, ég geti farið í mál við ríkið og fengið dæmdar bætur? Er það leiðin sem við viljum fara inn á? Eða til dæmis ákvæðið sem segir að allir eigi að hafa rétt til atvinnu. Ef enginn vill ráða mig á vinnumarkaði, er þá verið að brjóta stjórnarskrárbundin réttindi mín, á ég að geta farið í mál við ríkið vegna þess að þjóðfélagið er ekki þannig að það vilji ráða mig í vinnu og á ég að fá dæmdar bætur út á það? Og svo framvegis.

Ég held að fólk hafi verið á algerum villigötum þegar það sló þann grunntón sem er í drögunum. Það getur vel verið að fallegt sé að segja að allir eigi að búa við mannlega reisn, það hljómar mjög vel og ég er sammála því. En aftur á móti er ekki hægt að hafa slíka hluti í grunnlögum vegna þess að það er ekki skýrt hvað mannleg reisn er og ekki skýrt hvaða réttindi er verið að verja. Það verður að vera hægt að verja réttindin fyrir dómstólum og það er ekki hægt í þessu tilfelli.