140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður virðumst vera alveg sammála um að þetta réttindaflóð, öll þau réttindi sem búið að hlaða inn í þessi drög, stenst enga nánari skoðun, enga grunnskoðun, t.d. að allir eigi rétt á að búa við frið. Ef ófriður brýst út í einhverju nágrannalandanna sem leiðir hingað til Íslands, eigum við þá að fara í mál við ríkið vegna þess að það hefur ekki tryggt okkur þann frið sem er stjórnarskrárvarinn réttur okkar? Ég vil segja að þeir sem sömdu þetta hafa alls ekki hugsað málið til enda og hafa ekki nálgast verkefnið með því hugarfari að búa til grunnlög sem verja borgarana fyrir því sem við viljum verja þá fyrir. Almennar fallegar yfirlýsingar hafa ekkert með það að gera og hafa ekkert með grunnlögin í landinu að gera.