140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ágæta ræðu sem vakti mann til umhugsunar um marga þætti og þó að ég sé sammála sumum get ég líka sagt að það eru ákveðnir þættir sem maður þarf kannski ekki efnislega að vera sammála líka. En til þess er orðræðan að reyna að fá upplýsingar um hvað býr að baki ákveðinni hugsun. Það sem ég vil taka undir með hv. þingmanni er til að mynda fjöldinn sem mun taka þátt í þessari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem sumir nefna skoðanakönnun og ég held að það sé eiginlega réttnefni í þessu. Hættan við þetta er, eins og hv. þingmaður benti á, sérstaklega fyrsta spurningin. Hún er algerlega opin og veitir kjósendum eiginlega enga tryggingu fyrir einu eða neinu nema að það er algerlega lagt fram opið í hendur stjórnmálamanna fyrst og fremst hvað eigi að móta úr þessari skoðanakönnun sem við fáum síðan niðurstöðu um.

Ég vildi bara fá að heyra hjá hv. þingmanni um þennan fjölda og vangaveltur til dæmis í ljósi sögunnar, náttúrlega ekki nærri eins stórt mál en samt kannski mikilvægt í hugum margra, ekki síst t.d. landsbyggðarinnar, og það er skoðanakönnunin sem Reykjavíkurlistinn lét framkvæma á sínum tíma, og ekkert óeðlilegt við það, hvort flugvöllurinn ætti að fara eða vera. Þar var þátttaka í kringum 30% og mjög mjótt á munum. Hvernig lítur hv. þingmaður á það ef þátttaka í þessari skoðanakönnun eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu verður ekkert sérstök, hvernig telur hún að þeirri niðurstöðu verði tekið, til að mynda af hálfu þeirra þingmanna sem hér stjórna í meiri hluta?