140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:44]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru mikil vonbrigði hversu lítil þátttaka var í kjörinu til stjórnlagaþings á sínum tíma. Það var kannski vegna þess að ekki hafði verið leitað nógu mikilla sátta um það fyrirkomulag, því miður. Við ættum að læra eitthvað af þeirri reynslu. Til að ná fram málum þarf að gefa eftir og semja við fólk sem menn líta á sem andstæðinga sína. Ég tel að það hefði þurft að reyna meira en gert var til að ná meiri sátt um það fyrirkomulag. Núna óttast ég að við séum enn og aftur að fara í sama farið og það verði ekki einu sinni sú 30% þátttaka í þessari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eins og var í kosningunni til stjórnlagaþings vegna þess að núna sér fólk ekki til hvers það er að taka þátt. Í kosningunni um stjórnlagaþingsfulltrúa voru ákveðnir fulltrúar af lista mjög marga kjörnir fyrir þjóðina að gerð tillagna um stjórnarskrá. En hér er, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir bendir á, algerlega óljóst til hvers þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er og ekki nóg með það, heldur er mjög erfitt að svara fyrstu spurningunni. Maður stoppar þar, og ég alla vega sem kjósandi tek hlutverk mitt mjög alvarlega og vil gefa sem besta mynd af því sem ég óska eftir að verði minn fulltrúi eða mín túlkun á einhverjum álitamálum. Ég get það ekki með fyrstu spurningunni. Ég get ekki útskýrt fyrir þingheimi hvaða afstöðu ég hef (Forseti hringir.) með þeim valkostum sem þar eru.