140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:49]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók einmitt eftir þessari breytingartillögu, um fækkun þingmanna úr 63 í 51, og ég verð að segja að ég er algerlega sammála þeirri tillögu og ætla mér meðal annars að samþykkja hana ásamt mörgum öðrum breytingartillögum. Ástæðan er kannski svolítið önnur en hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir hefur fyrir framlagningu þessarar tillögu. Ég vil auka völd nærsamfélaga með því að fækka þingmönnum á þingi og taka upp svæðisþing. Ástæðan er sú að eftir að við fluttum til dæmis stóran málaflokk eins og málefni fatlaðra til sveitarfélaganna kom í ljós að sveitarfélögin þurfa að leita meira til stjórnsýslunnar í Reykjavík en áður vegna þess að það er ekki hægt að koma þessari stjórnsýslu, svo stórum málaflokki yfir á einstök sveitarfélög heldur þarf stærra apparat. Áætlanir eru uppi um að færa málefni aldraðra yfir á sveitarfélögin og stjórnsýsla þeirra á að fylgja með, eins og stjórnsýsla málefna fatlaðra átti að fylgja með yfirfærslu á þeim verkefnum. En það er ekki hægt nema þetta þriðja stjórnsýslustig komi til og til að fjármagna það vil ég skera niður á þingi, enda fara þá mörg mál á þetta svæðisþing sem annars hefðu komið hingað inn. Ég vil líka nota svæðisþingin til að taka við hluta af auðlindagjaldinu til að tryggja að auðlindagjaldið fari ekki hingað suður í ríkiskassann og úr samfélögunum úti á landi, heldur fari þangað til baka (Forseti hringir.) og það sé þá fólksins að ákveða í hvað þeir peningar eru notaðir.