140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Við höldum áfram umræðunni um þingsályktunartillögu frá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum, þar með talið Hreyfingunni, varðandi þá skoðanakönnun sem stefnt er að nú í haust.

Rótin að því að við horfum fram á þessa þingsályktunartillögu er að mínu mati sú að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hafa ekki lagt sig fram um að ná sátt um þær breytingar á stjórnarskránni sem allir geta viðurkennt og telja ágætt að fara í.

Ég hef komið inn á það í fyrri ræðum mínum í tengslum við stjórnarskrána að það er eins og við gleymum alltaf sögunni. Ég hef verið að hlusta á nokkrar ræður hér og það er með endemum að hlusta á suma stjórnarþingmenn tala eins og stjórnarskrá Íslands hafi aldrei verið breytt í áranna rás. Ekki þarf að fara lengra aftur en til ársins 1991 þegar töluverðar breytingar voru gerðar. Einnig voru miklar breytingar gerðar á mannréttindakaflanum 1995 eftir mjög umfangsmikið samráð þvert á flokka og í samfélaginu. Töluverðar breytingar voru líka gerðar á stjórnarskránni 1999 þegar kjördæmaskipaninni var breytt, sem er hægara sagt en gert, og ýmsar aðrar breytingar voru samþykktar.

Það er svolítið merkilegt að upplifa að í þeim ræðum sem ég hef verið að hlusta á hjá sumum stjórnarliðum er eins og þau vilji ekki viðurkenna þessar breytingar. Það er mín skoðun að betra sé að fara hægt í breytingar og hafa þær skynsamlegar, gera þá breytingar sem meiri sátt næst um, en gera þær breytingar sem nú eru ræddar. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir vinnu þeirra sem voru í stjórnlagaráði sem og annarra sem komið hafa að gerð og mótun þessara tillagna.

Ég hef bent á það í gegnum tíðina að nefnd undir forustu Jóns Kristjánssonar hafði á sínum tíma gríðarlega miklu hlutverki að gegna í tengslum við breytingar á stjórnarskránni og eftir að forseti Íslands hafði til að mynda beitt málskotsrétti sínum í fyrsta sinn varð ljóst að menn þurftu að sameinast um þær breytingar sem gera þyrfti á stjórnarskránni. Ég hef meðal annars nefnt breytingartillögu er varðar — ég er ekki með stjórnarskrána en mig minnir að það sé 79. gr. hennar. Við sjálfstæðismenn höfum ítrekað sagt að við séum reiðubúin að setja inn svonefnt auðlindaákvæði í stjórnarskrána og auðvitað þyrfti að ræða hlutverk og eðli forsetaembættisins. En eina skjaldborg vinstri manna, sem Samfylkingin sló upp á sínum tíma, var sú að í engu mætti hrófla við forsetaembættinu í stjórnarskránni. Mikið var reynt að ná samstöðu um að fara í ákveðnar breytingar, skoða sérstaklega hlutverk forsetans til lengri tíma litið, en ekki var með nokkru móti hægt að tala Samfylkinguna inn á slíkar breytingar. Ég held að menn sjái það núna að þar að baki bjó afskaplega skammsýn pólitísk hugsun. Ég hef heyrt það frá þeim sem störfuðu í stjórnarskrárnefndinni, úr öllum flokkum, hvort sem það voru sjálfstæðismenn, framsóknarmenn eða vinstri grænir, að mjög stutt hafi verið á milli manna, í mesta lagi kannski hálfsárs vinna eftir til að leggja fram raunhæfar breytingar á stjórnarskránni.

Við sjálfstæðismenn höfum alltaf lagt upp með að það skipti máli að vinna breytingar á stjórnskipaninni í sátt. Vegna afstöðu Samfylkingarinnar fór þessi vinna við breytingar á stjórnarskránni í hægagang, eðlilega. En viti menn, þau undur og stórmerki hafa gerst, einhverra hluta vegna, að Samfylkingin hefur kúvent í málinu og nú á bara að láta stjórnarskrána, og um leið samfélagið allt, gjalda fyrir flumbruganginn sem viðhafður er af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar.

En hingað erum við komin. Ég hef sagt að sagan skipti miklu máli þegar verið er að ræða stjórnarskrána. Það er rangt sem haldið hefur verið fram að menn hafi ekki viljað leggja sig fram um að breyta stjórnarskránni. Við ræddum ekki alls fyrir löngu norsku skýrsluna svonefndu, um stöðu, framkvæmd og þýðingu EES-samningsins fyrir norskt samfélag. Þar kom skýrt fram að EES-samningurinn hefði haft gríðarlega miklu hlutverki að gegna fyrir norskt samfélag og hagsmunir tengdir samningnum væru miklir. Það er rétt að draga það fram að stjórnarskráin þar er öðruvísi en hér á landi þegar kemur að framsali til erlendra alþjóðlegra stofnana. Norðmenn sögðu: Gott og vel, við viðurkennum að það er lýðræðishalli og hann hefur aukist frá því að samningurinn tók gildi 1994 til dagsins í dag. Á móti kemur að hagsmunirnir fyrir norskt samfélag eru það miklir að almenn samfélagsleg sátt er um að halda í EES-samninginn og reyna helst að styrkja hann með einhverjum hætti.

Hér heima ræddum við þessa skýrslu í þinginu og sáum fram á — og það er rétt að draga það fram — að burt séð frá Evrópusambandsumsókninni sem er í gangi og er augljóst að mætir mikilli mótstöðu í samfélaginu skiptir máli að klára viðræðurnar og leyfa þjóðinni að kjósa um nýjan samning. En eftir aðfarir ríkisstjórnarinnar er málið allt að því að komast í öngstræti. Þess vegna tek ég undir það að kosið verði um hvort framhald eigi að vera á Evrópusambandsumsókninni samhliða þingkosningum þannig að kjósendur geti gefið væntanlegum stjórnvöldum skýr skilaboð um það. Þetta er einföld spurning sem kjósendur ættu að geta tekið afstöðu til.

Ef við ýtum ESB til hliðar stöndum við eftir sem áður með EES-samninginn í höndunum. Það er alveg ljóst að síðan við lögleiddum samninginn 1992 og hann tók formlega gildi 1994 hefur lýðræðishallinn vissulega aukist og allt hefur komið fram sem sérfræðingar vöruðu við á sínum tíma í tengslum við stjórnarskrána. Við þurfum eftir sem áður að taka afstöðu til þess hvort heimild eigi að vera í stjórnarskránni til að framselja vald til alþjóðlegrar stofnunar, ef við ætlum á annað borð að halda í EES-samninginn. Svo hafa ýmsir hér inni miklar efasemdir um þann samning, ég er þeim ósammála en ég virði engu að síður þær skoðanir. Þá er best að við ræðum það en ljóst er að við þurfum að breyta stjórnarskránni með tilliti til þessa.

Ég held að það hefði verið gríðarlegur fengur ef við hefðum náð þeim breytingum fram að koma auðlindaákvæði í stjórnarskrána, rætt um framsal á valdi til alþjóðlegra stofnana og breytingarákvæðið svonefnda. Síðan sjáum við þessar tillögur. Við sjálfstæðismenn höfum sagt að við séum á móti þessu ferli af því að við teljum það ekki farsælt fyrir þjóðina eða í þágu stjórnarskrárinnar, en við stöndum nú frammi fyrir þeim spurningum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur sett fram. Það er með ólíkindum að fulltrúar þeirra afla sem talað hafa um aukið gagnsæi og að skýr og klár markmið séu sett fram hverju sinni vilji setja nafn sitt við þessar tillögur, þá sérstaklega fyrstu spurninguna. Svarið við henni væri: Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Hvað þýðir það? Þetta er algjört yfirklór og að mínu mati er fyrst og fremst verið að afhenda stjórnmálamönnum mjög opinn tékka í málinu, mjög víðtækt svið. Ekki er með neinu móti hægt að segja að kjósendur fái tækifæri til að tala skýrt til þingmanna. Þær tillögur sem nú liggja fyrir eru óljósar og illa ígrundaðar.

Ég tek undir með hv. þm. Lilju Mósesdóttur, þó að ég sé ekki sammála henni í öllu, sem sagði hér áðan að nær hefði verið, fyrst við erum komin á þetta stig, að reyna að ná einhverju samkomulagi um allar þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram í tengslum við þetta mál.

Ég hef meðal annars lagt fram breytingartillögu í þessu máli sem felur það í sér að kjósendur geti svarað því, já eða nei, hvort fækka eigi þingmönnum úr 63 í 51. Það er mjög skýr spurning sem kjósendur geta svarað og gefur skýr skilaboð. Það sem við stjórnmálamenn þurfum í raun að fá eru skýr skilaboð, en ekki loðin og molluleg eins og þau sem þingsályktunartillagan gefur færi á.

Tími minn er liðinn. (Forseti hringir.) Það er svo ótal margt sem ég á eftir að koma inn á að ég bið hæstv. forseta að setja mig nú þegar aftur á mælendaskrá.