140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir spyr mjög skýrt sem er annað en þær tillögur að spurningum sem við fjöllum um.

Jú, þetta verður úrelt, að mínu mati. Miðað við afgreiðslu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tel ég að þessi skoðanakönnun sé í raun strax orðin úrelt því að stjórnarmeirihlutinn, með Hreyfinguna í broddi fylkingar, hefur nú þegar áskilið sér rétt til að fara ekki endilega eftir niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu sem gerð verður.

Við heyrðum forsætisráðherra svara hér í morgun fyrirspurn um samningaviðræður við Hreyfinguna. Það að samningaviðræður séu í gangi eru tíðindi í sjálfu sér. Það eru stórtíðindi í sjálfu sér að forsætisráðherra, sem í aðra röndina vill alls ekki viðurkenna að verið sé að ræða við Hreyfinguna, hefur nú þegar í þessum stól viðurkennt að vera í samningaviðræðum við hana. Út á hvað skyldu þær samningaviðræður ganga? Meðal annars út á stjórnarskrána.

Í miðri umræðu um stjórnarskrármálið og stjórnlagaráðstillögurnar fáum við ekkert að vita hvaða málamiðlanir forsætisráðherra og hennar fylgdarlið hefur hugsað sér að gera við Hreyfinguna. Það er með ólíkindum að upplifa þessi vinnubrögð og í raun setur það þingið enn og aftur niður. Það sama á við þegar farið er yfir fréttaflutning af blaðamannafundinum, en það er önnur saga. Við erum að ræða hér stjórnlagaráðstillögurnar og um leið er verið að semja um þær í næsta herbergi. Mér finnst það umhugsunarvert.

Hv. þingmaður spyr líka um umbyltingu á mannréttindakaflanum. Ég held að allir hafi verið sammála um það, hvort sem það voru vinstri menn, hægri menn, miðjumenn, norðanmenn eða sunnanmenn, hvað þá fræðimenn úti í samfélaginu, að það skref sem stigið var 1995, annars vegar hvernig unnið var að því og hins vegar hvernig það var síðan stigið í þinginu, hafi verið afar farsælt, (Forseti hringir.) vel ígrundað og vel unnið. Mér finnst það miður að menn skuli umbylta þessum kafla sem hefur nýst (Forseti hringir.) Íslandi og ekki síst Íslendingum, einstaklingum í samfélaginu, afar vel.