140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir eitt og annað sem kom fram í máli hv. þingmanns og þá einkum það sem kom fram hjá honum varðandi EES-samninginn og það valdaafsal eða þann lýðræðishalla sem hann hefur haft í för með sér. Hv. þingmaður ræddi nýútkomna skýrslu í Noregi sem fjallar um EES-samninginn og það valdaafsal sem þar hefur átt sér stað samhliða þessum samningi, og það sama hefur auðvitað gerst hér á Íslandi.

Ef maður skoðar stöðuna í Noregi í dag er hún svipuð og hér á Íslandi, eins og hv. þingmaður kom inn á. Andstaðan við Evrópusambandsaðild er öllu meiri í Noregi en hér en engu að síður er gríðarleg andstaða í báðum þessum löndum. En 1/3 hluti Norðmanna er hins vegar líka á móti EES-samningnum og ég held að þannig sé málum reyndar ekki háttað hér, ég hugsa að andstaðan við EES-samninginn sé ekki jafnsterk hér á landi.

Margir sem hafa fjallað um þessa skýrslu segja að um þrjár leiðir sé að velja fyrir Norðmenn. Númer eitt væri að ganga í ESB, númer tvö væri að segja sig úr EES. Flestir eru sammála um að hvorugt þeirra atriða verði ofan á í Noregi, Noregur sé ekki að fara að segja sig úr EES á næstu árum og heldur ekki að fara að ganga í Evrópusambandið. Þriðja leiðin væri þá að leita einhvers konar leiða til að draga úr því fullveldisafsali sem EES-samningurinn hefur haft í för með sér, hugsanlega endurskoða hann.

Ég áttaði mig ekki á því í máli hv. þingmanns þegar hún talaði um fullveldisafsalið sem EES-samningurinn hefur í för með sér og að það bryti hugsanlega í bága við stjórnarskrá — var hv. þingmaður að mæla með því að við mundum heimila það fullveldisafsal í stjórnarskrá eða hugsanlega að fara þá leið að draga úr því og leita eftir endurskoðun á EES-samningnum, og þá kannski í samstarfi við Norðmenn, til að draga úr þessu fullveldisafsali? Það væri gott að fá þetta fram.