140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Sjónarmið hv. þingmanns eru mjög skiljanleg, að menn velti þessu upp. Það er líka rétt að undirstrika það sem kom fram í norsku skýrslunni. Menn segja beinlínis að þeir muni viðurkenna þennan lýðræðishalla, hann sé öllum ljós, en þeir vilji frekar búa við hann af því að hagsmunirnir út af EES-samningnum séu það miklir. Menn eru sem sagt reiðubúnir til að lúta því ákveðna framsali sem átt hefur sér stað og hefur auknar heimildir í norskum lögum en í íslenskum.

Ég held að við verðum að vera raunsæ. Það hefur komið fram í máli norska utanríkisráðherrans, Støre, að það er ekki raunsætt að taka EES-samninginn upp, skilaboðin frá ESB eru alveg skýr hvað það varðar. Það þyrfti þá alveg nýtt samningaferli sem ég á eftir að sjá að gæti gengið eftir.

Það er ekkert óeðlilegt að menn láti á þetta reyna í samvinnu við Norðmenn og við erum svolítið háð Norðmönnum hvað þetta varðar. Mín skoðun er hins vegar sú að raunsærra sé að setja svona ákvæði í stjórnarskrána með tilliti til EES-samningsins og til þess að undirstrika að við viljum vera fullgildir aðilar að því samstarfi og samningi sem hefur fært okkur Íslendingum gríðarlega hagsmuni og hefur verið mikil búbót fyrir okkur sama á hvaða sviði borið hefur niður, hvort sem það er á sviði menntaáætlana, menningaráætlana, rannsóknaráætlana, heilbrigðisáætlana eða hvað það er sem við höfum síðan verið í samstarfi við ESB um á grundvelli EES-samningsins.

Með þessu er ég að draga fram að við megum ekkert vera að tipla á tánum í kringum þetta mál, þessa umræðu í tengslum við stjórnlagaráðstillöguna. Þess vegna var svo skrýtið að sjá ekki tillögu um þetta atriði. Þess vegna hafa fulltrúar okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komið fram með breytingartillögu um það að slík spurning verði líka lögð fyrir þjóðina. Það er alveg makalaust að meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki viljað spyrja þjóðina um þetta. (Forseti hringir.) Ég held að allir eigi að sameinast um þetta hvort sem menn eru fylgjandi því að aðildarsamningar við ESB verði kláraðir eða ekki.