140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér áfram um ferlið sem drög að stjórnarskrá á að fara í og er aðallega talað um þjóðaratkvæðagreiðslu í því sambandi. Ég sakna þess nokkuð að hv. þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, séu ekki viðstödd umræðuna en þau hafa sýnt málinu mikinn áhuga. Hæstv. forsætisráðherra sagði að þau legðu áherslu á að þetta mál verði afgreitt og í staðinn vildu þau festa þessa ríkisstjórn í sessi með öllum hennar kostum og göllum.

Ég sakna þess líka að fleiri þingmenn séu ekki viðstaddir eins og til dæmis flutningsmenn málsins, sem hafa ekki sést lengi. Það er dálítill galli að geta ekki fengið sjónarmið þeirra fram vegna þess að málið sem við ræðum er mjög stórt. Bornar hafa verið fram fjöldamargar breytingartillögur og áhugavert hefði verið að heyra skoðanir allra þessara þingmanna á þeim, hvort þeir leggi til að þær verði samþykktar eða felldar. Það hefði þá getað orðið veganesti fyrir þjóðina í atkvæðagreiðsluna.

Vandinn, herra forseti, er sá að þjóðin veit eiginlega ekkert um hvað hún er að greiða atkvæði vegna þess að málið hefur ekki verið rætt efnislega á þingi. Það má segja að þingmenn viti það ekki heldur, af því að áður en maður ræðir hlutina efnislega er maður ekkert mjög vel inni í málunum og veit ekki kosti og galla ýmissa atriða.

Ég ætla í þessari örstuttu ræðu minni að ræða um forseta Íslands. Hann hefur verið mikið í fréttunum. Hann hefur vísað nokkrum málum til þjóðarinnar sem ég er mjög ánægður með, önnur var ég síður ánægður með. Ég var til dæmis ekki ánægður þegar hann vísaði fjölmiðlamálinu til þjóðarinnar, en Alþingi ógilti það svo. En ég tel að í sambandi við Icesave hafi hann nánast bjargað þjóðinni frá verulega miklum skakkaföllum sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hefði borið ábyrgð á. Ég sakna þess að það mál hafi ekki verið rætt í hörgul.

Ég hef hins vegar lagt fram frumvarp um að afnema embætti forsetans. Ég tel að embættið sé tímaskekkja, það hafi aldrei átt heima á Íslandi. Fyrri forsetar voru reyndar tiltölulega aðgerðalitlir þannig að það var svo sem allt í lagi. En þegar forseti fer að verða mjög aðgerðamikill og pólitískur, þannig að forsetakosningar verða í framtíðinni meira og minna pólitískar, verðum við að fara að skoða hvort við viljum hafa forseta.

Við vorum í margar aldir með erlendan konung yfir okkur, ætli það hafi ekki verið í sex aldir sem við vorum nýlenda erlendra þjóða. Það voru svo sem ágætisnýlenduþjóðir og ágætiskonungar en ég hugsa að þjóðinni hefði vegnað betur án þeirra tengsla — og þess vegna er ég á móti því að ganga í Evrópusambandið, en það er önnur saga. En ég tel að íslensk þjóð geti alveg komist af án konungs eða forseta sem er ígildi konungs.

Menn hafa bent á það að einmitt þessi málskotsréttur forsetans hafi bjargað málum, sérstaklega í Icesave, og að forsetinn hafi komið mjög vel út í því máli öllu. Ég hef sagt það hér áður að forseti Íslands var sá sem stóð eins og klettur gegn erlendri pressu. Mér fannst bera meira á honum en allri utanríkisþjónustunni samanlagt, hann stóð sig frábærlega vel. Engu að síður mundi ég vilja skoða hvort leggja ætti embættið niður og í staðinn ætti að koma, sem ég bendi á í umsögn minni til nefndarinnar, réttur þjóðarinnar til að krefjast þingrofs. Ég held það yrði miklu meira virði en að geta lagt einstök mál fyrir Alþingi. Það að geta lagt fyrir einstök mál á Alþingi er ósköp lítils virði. Hver einasti þingmaður getur flutt mál og ef einhver hópur kjósenda kæmi til mín og segði að hann hefði gott mál til að flytja og væri búinn að útbúa það og hafa það tilbúið mundi ég stökkva á það nema það væri gjörsamlega andstætt lífsskoðunum mínum.