140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það ferli sem þetta mál er komið í er mjög undarlegt. Það er farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og þá kynni hinn almenni kjósandi að halda að hann hefði eitthvað um málið að segja. Svo er þó ekki, herra forseti, vegna þess að þegar búið er að greiða atkvæði um þetta mál stendur til að breyta því. Þá á að fara fram efnisleg umræða um málið.

Það er mjög margt gott í þessum hugmyndum, t.d. Lögrétta, en ég tel mjög slæmt hvernig hún er lögð upp í frumvarpinu. Ég hefði viljað breyta greininni gersamlega. Ég hefði viljað að fullskipaður Hæstiréttur myndaði Lögréttu, skoðaði ekki bara frumvörp frá Alþingi heldur líka mál sem koma upp í gegnum Hæstarétt þar sem menn efast um að lög standist stjórnarskrá. Þá ætti Lögrétta að taka til málsins eins og stjórnlagadómstólar gera annars staðar.

Það er mjög margt gott í þessu en það þarf að breyta því verulega. Svo er líka mjög margt mjög hættulegt og mér finnst allt að því atlaga að stjórnarskrárbreytingunum frá stjórnlagaráðinu að senda skjalið svona hrátt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef það verður samþykkt, hvað þýðir það? Má breyta því? Jú, menn segjast ætla að breyta því þannig að þetta hefur ekkert að segja. Ef það verður fellt, hvað ætla menn þá að gera? Segjum að það verði fellt vegna þess að þarna er ákvæði sem auðveldar mjög aðild að Evrópusambandinu og af því að flestir Íslendingar eru á móti aðild að því ágæta bandalagi spyr ég: Hvað gerist ef meiri hlutinn fellir þessar tillögur sem sumar hverjar eru ágætar? Þær eru nefnilega slæmar í bland. Hvað gerist þá? Ég hefði talið miklu skynsamlegra að Alþingi sem er stjórnarskrárgjafinn í landinu hefði farið í gegnum þetta áður en það sendi (Forseti hringir.) það til umsagnar.