140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Haustið 2008 gerðist hér nokkuð sem hefur verið kallað hrun. Sumir segja bankahrun en ég hef bent á að það hafi líka verið annars konar hrun sem sneri að ríkissjóði — í rauninni sambærilegt og Svíar gengu í gegnum fyrir um 20 árum — og stafar af útþenslu og agaleysi á Alþingi.

Það sem gerðist við hrunið, ég átti sæti á Alþingi þá, var að valdaleysi Alþingis var opinberað og það blasti við að Alþingi sem slíkt hafði ekki tæki til að koma í veg fyrir hrunið og gat því ekki brugðist við því. Ég held að það lýsi því best þegar tvær þingkonur úr stjórnarmeirihlutanum, sem var þá frekar mikill, það var í rauninni aukinn meiri hluti á Alþingi, stigu upp í pontu og sögðu að þeim liði eins og þær væru afgreiðslukonur á kassa, með öðrum orðum Alþingi væri ekki til annars bært en að stimpla mál.

Í ljósi þessa vildi ég breyta stjórnarskránni. Til að færa völd til Alþingis og kannski þau völd sem almenningur telur að Alþingi hafi þarf að breyta stjórnarskránni. Framsóknarflokkurinn ákvað á flokksþingi sínu skömmu seinna, í janúar 2009, að boðað skyldi til stjórnlagaþings. Það var samþykkt með miklum meiri hluta þeirra sem tóku þátt í því þingi, yfir þúsund manns sátu það ágæta þing. Það að kalla til stjórnlagaþings var kannski nauðsynlegt einfaldlega vegna þess að ekki hafði tekist að breyta stjórnarskránni frá því að Ísland varð lýðveldi árið 1944. Þar tóku menn gömlu stjórnarskrána upp, höfðu reyndar tekið hana upp áður, og ræddu að í henni væru ákvæði sem þyrfti að breyta. Vald ráðherra væri einfaldlega of mikið og í anda þess sem hirðmenn konungs í Danmörku hefðu. Þetta er það fyrirkomulag sem við höfum búið við. Reyndar var mannréttindakafla stjórnarskrárinnar breytt árið 1995 og ég tel að það hafi verið afskaplega góðar og þarfar breytingar. Þegar það var gert átti sér stað vönduð og efnismikil umræða og menn voru sammála um það hér á þingi að ráðast skyldi í þær breytingar.

Síðan gerðist það að í meðförum þingsins þegar kjósa átti til stjórnlagaþings fór allt í handaskolum. Lögin voru illa unnin sem endurspeglar kannski vandræði þingsins og Hæstiréttur dæmdi kosninguna til stjórnlagaþings ógilda. Það er kannski til marks um hversu illa lögin voru samin að Hæstiréttur virkaði þarna í rauninni ekki sem dómstóll heldur sem æðra sett stjórnvald eða einhvers konar yfirúrskurðarnefnd sem gerði það svo aftur að verkum að vafi kom upp um hvort hægt væri að vísa þeirri niðurstöðu til dómstóla.

Ég var í þeirri stöðu að Framsóknarflokkurinn bað mig um að vera fulltrúa sinn í nefnd til að finna út hvað væri best að gera. Við í nefndinni fórum ítarlega yfir það hvaða leiðir væru færar. Ýmsar hugmyndir voru uppi, til dæmis að kjósa upp á nýtt með tilheyrandi kostnaði eða taka málið algerlega inn á Alþingi. Á þeim tímapunkti fannst mér rétt að halda áfram, horfa fram hjá þeim mistökum sem gerð voru á Alþingi, sætta okkur við það að Hæstiréttur skyldi hafa ógilt kosninguna og stofna til stjórnlagaráðs. Í stjórnlagaráðinu áttu að sitja þeir sem hlutu kosningu til stjórnlagaþings. Sumir segja að þeir hafi verið umboðslausir en þá ber að hafa í huga að Hæstiréttur felldi kosninguna úr gildi vegna formgalla sem ég taldi minni háttar og hefði hugsanlega ekki átt að leiða til ógildingar, en Hæstiréttur var ekki sömu skoðunar. Það hefur enginn haldið því fram að einhvers konar svindl hafi verið í gangi og kosningin hafi verið ógild af þeim sökum. Það var eingöngu um formgalla að ræða.

Þegar ég tók þá ákvörðun með meiri hlutanum að halda áfram þótt leiðin væri upp í mót og þar væri að finna urð og grjót, og þó að við mundum hrasa ættum við að standa upp aftur og halda áfram, þá lét ég það fylgja sem skilyrði að þegar stjórnlagaráð skilaði af sér tillögum mundu tillögurnar koma inn á Alþingi til efnislegrar meðferðar. Þar liggur hundurinn grafinn, virðulegi forseti. Tillögur stjórnlagaráðs hafa ekki verið teknar til efnislegrar umræðu á Alþingi. Það hefur formaður nefndarinnar viðurkennt og þeir sem sitja í stjórnarandstöðu, að efnisleg umræða í nefndinni hafi nánast ekki farið fram.

Ég hef hlustað á þær ræður sem hafa verið haldnar og má segja að fram hafi farið einhvers konar efnisleg umræða í ræðustól, og það er vel, en það hefur algerlega vantað að stjórnarþingmenn komi hingað og taki þátt í umræðum af einhverju viti. Þetta er hinn lögformlegi staður kjörinna fulltrúa þjóðarinnar að ræða efnislega um mál og það er ekki bara okkar í stjórnarandstöðu að halda uppi umræðu. Við þurfum að fá önnur sjónarmið, við þurfum að fá sjónarmið þeirra sem vilja að þingsályktunartillagan fái brautargengi.

Nú er lagt til að tillögur til stjórnarskipunarlaga og álitaefni þeim tengd skuli borin upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, samanber 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Ég óttast að við lendum í sömu sporum og þegar kosið var til stjórnlagaþings. Þá var ákveðið í fyrsta skipti að stofna til persónukjörs og gera landið að einu kjördæmi. Ég er fylgjandi persónukjöri og skil reyndar ekki af hverju ekki er búið að innleiða það á Íslandi. Við erum ein af fáum þjóðum í Evrópu sem höldum gamla fyrirkomulaginu. En útfærsla þess persónukjörs þá fór fram var svo illa úr garði gerð að það hefur nánast eyðilagt það að hér verði hægt að taka upp persónukjör sem allir landsmenn sætta sig við.

Í öðru lagi held ég að fullreynt sé að gera landið að einu kjördæmi. Það mun leiða af sér þvílíkan lýðræðishalla að þeir sem eru í minni hluta og búa úti á landi munu ekki eiga fulltrúa sína hér eins og þeir þurfa.

Nú er spurt um það hvort þjóðin vilji jafna vægi atkvæða í þessari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og mér sýnist sem svo að það gæti hugsanlega verið samþykkt vegna þess að þorri kjósenda býr á höfuðborgarsvæðinu. En af hverju erum við með jöfn atkvæði dreift um landið? Jú, vegna þess að höfuðborgin nýtur þess umfram landið allt að þar er Alþingi Íslendinga, ráðuneytin og aðrar nauðsynlegar stofnanir. Því fylgja mikil umsvif, miklir fjármunir, mikil atvinna og gerir það að verkum að jafna verður það ójafnvægi út með einum eða öðrum hætti. Eina leiðin til að gera það er að tryggja þeim sem búa í hinum dreifðari byggðum aukinn atkvæðisrétt, eins og á Vestfjörðum.

Í Bandaríkjunum er því þannig háttað að þeir sem búa í Washington hafa ekki kosningarrétt á við aðra landsmenn. Af hverju? Jú, Hvíta húsið er þar, stjórnsýslan er þar, þingið er þar, Hæstiréttur er þar og jafna þarf þann mismun út.

Eins og ég kom inn á áðan þegar ég benti á þau flausturslegu vinnubrögð sem viðhöfð voru á Alþingi og hefðu gert það að verkum að nánast væri búið að eyðileggja persónukjörið, þá tel ég að með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sé hugsanlega verið að eyðileggja þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem við þurfum á að halda í framtíðinni.

Af hverju er talað um auknar þjóðaratkvæðagreiðslur? Vegna þess að landsmenn átta sig á því að til þarf að vera einhver öryggisventill sem fær fram hinn raunverulega vilja landsmanna til erfiðra og umdeildra mála. Það er einn slíkur öryggisventill til í dag og hann liggur hjá forseta Íslands. Honum hefur verið beitt skynsamlega og þannig að nánast 100% Íslendinga felldu úr gildi lög sem höfðu verið samþykkt af meiri hluta Samfylkingar og Vinstri grænna.

Í þessum tillögum á að breyta eðli forsetaembættisins. Ég held að þær tillögur þurfi mikla efnislega umræðu á Alþingi Íslendinga. Forsetinn benti okkur á þegar Alþingi var sett í haust að hugsanlega væri verið að færa forsetanum meiri völd en hann hefði nú þegar. Ég held að okkur sé hollt að hlusta þegar forsetinn sjálfur beinir þessum tilmælum til okkar sem sitjum á Alþingi Íslendinga.

Það er eitt sem ég vil benda á. Í tillögunni til þingsályktunar kemur fram svohljóðandi spurning: „Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?“

Þetta er hin raunverulega spurning sem á að spyrja þjóðina að í hinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér sýnist sem svo að ef meiri hluti landsmanna samþykkir þessa tillögu þá verði það gert án þess að hún fái efnislega umræðu á Alþingi. Ég hef heyrt í stjórnlagaráðsmönnum sem hafa lýst yfir óánægju með þennan framgang og sagt að vinna þurfi málið betur. Það þarf nefnilega að vinna þetta mál betur og ég get sagt að mín tilfinning og skoðun er að hugsanlega verði þessi nýja stjórnarskrá felld bara út af einu ákvæði, einum þætti. Ástæðan er sú að landsmenn munu aldrei samþykkja það að gera landið að einu kjördæmi. Ég trúi því ekki. Jafnvel þó að allt annað sé gott í þessum tillögum þá er ég ansi hræddur um að menn muni merkja við reitinn: „Nei, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá.“

Það er líka annað sem við þurfum að ræða. Stjórnlagaráð breytti mannréttindakaflanum sem kemur fyrir í gömlu stjórnarskránni. Að mínu mati þurfti ekki að breyta þeim kafla. Hann er tiltölulega nýr sé miðað við stjórnarskrár almennt og það ríkti um hann alger samstaða. Það hefur ríkt alger samstaða um mannréttindakaflann í stjórnarskránni. Hann er í samræmi við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og fleiri sambærilega samninga sem við styðjumst við.

Ef menn segja já, þá verður mannréttindakaflanum breytt. Færustu sérfræðingar hafa komið og sagt að hugsanlega þurfi að skoða það betur. Ég lái ekki stjórnlagaráðinu vegna þess að ég tel að það hafi verið vel mannað þó að hallað hafi kannski á landsbyggðina vegna þess að þau höfðu sáralítinn tíma til að móta og koma með tillögur sínar.

Ég held, virðulegi forseti, að þau orð mín við fyrri umr. um að hugsanlega væri verið að stíga skref aftur á bak og ekki til góðs séu á rökum reist. Ég sat hjá við þá atkvæðagreiðslu og ég hef ekki gert upp hug minn hvort ég muni sitja aftur hjá að hafna þessum tillögum.

Það er einnig annað sem ég vil segja. Það er ótrúlegt að breytingar á stjórnarskrá Íslands skuli vera orðið bitbein í einhverjum hrossakaupum á Alþingi, skuli vera notað til að halda lífi eða hugsanlega fella þessa ríkisstjórn. Það er sorglegt, virðulegi forseti. En að þessu sögðu vil ég segja að margar góðar tillögur eru í tillögum stjórnlagaráðs. Ég held að þær hefðu getað gert stjórnarskrána betri en þó er ég ekki alveg viss um að aðalmarkmiðinu verði náð, sem var einmitt að styrkja Alþingi Íslendinga. Það var það sem ég taldi vera langmikilvægasta verkefnið þegar við fórum í það að breyta stjórnarskránni okkar, styrkja Alþingi þannig að Alþingi verði kleift, ekki bara að koma í veg fyrir kreppu heldur til að bregðast við hvers konar vanda sem steðjar að íslensku þjóðinni.