140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:22]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Því er til að svara að ég hef þegar haldið ræðu í þessu máli, gerði það frekar snemma í þessari löngu umræðu, og þar kom ég fram með mín sjónarmið. Ræðan er á vef þingsins og hægt er að hlusta á hana þar eða lesa.

Ég undrast það ef formaður nefndarinnar hefur sagt að ekki hafi farið fram efnisleg umræða því að við höfum rætt við langflest þungavigtarfólk sem sendi inn ábendingar.

Ég veit að þingmaðurinn er löglærður og veit hvernig maður breytir stjórnarskrá. Ég held að við séum algjörlega á réttu róli með þetta mál vegna þess að frumvarp þarf að samþykkja og svo rjúfa þing og miðað við þetta kjörtímabil leggjum við fram frumvarp í haust. Þá getur þingmaðurinn náttúrlega komið með breytingartillögu við það. Málið var lagt fram í skýrsluformi á þessum þingvetri og allir vita sem vilja vita það að maður leggur ekki fram breytingartillögu við skýrslu.