140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hallast að því að það sé akkúrat það sem átti að gera. Það átti að taka tillögur stjórnlagaráðs, ef ég skildi spurningu hv. þingmanns rétt, vinna þær á Alþingi og leggja á þeim grunni fram tillögur að nýrri stjórnarskrá. Það var í rauninni forsenda þess að ég samþykkti á sínum tíma að farið skyldi í þetta svokallaða stjórnlagaráð.

Ef menn vilja raunverulega breyta stjórnarskránni þá skilur helst á milli hvaða skref þeir vilja stíga til að breyta henni. Þjóðfundurinn var góður og hin svokallaða stjórnarskrárnefnd skilaði góðu verki. Hvort þar hefði átt að láta staðar numið var ekki mitt mat, mitt mat var að það þyrfti að fá einhverja fulltrúa frá þjóðinni til að koma að þessari vinnu. Ég vildi kannski taka þetta skrefinu lengra en hv. þingmaður, ef ég skil hann rétt. En ég ítreka að ég sagði að það yrði að fara fram efnisleg umræða.

Nú hafa okkur borist tölvupóstar frá þeim sem vilja hleypa þessu máli í gegn og ég spyr þá hina sömu: Vilja þeir ekki að efnisleg umræða fari fram? Vilja þeir ekki að þingmenn noti almennt ræðustól Alþingis til þess að fara yfir þetta mál? Ég hef ekki séð hann vera misnotaðan á einn eða annan hátt, þetta er það stórt mál að ég held að það sé rétt að menn nýti sér þann rétt sem þeir hafa til að ræða málið úr ræðustól Alþingis.