140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þingmaður vorum ekki sammála um að halda áfram með stjórnlagaráðið en það er hins vegar staðan sem við erum í. Ég var aðallega að kalla eftir því að þegar sú niðurstaða lægi fyrir, og heyri ég að hv. þingmaður er sammála mér um það, væri kominn nægur efniviður fyrir þingið til að fjalla um þær breytingar á stjórnarskránni sem þingið vill hugsanlega gera og leggja síðan í dóm kjósenda.

Manni finnst sumir misskilja þetta að því leyti að verið sé að taka rétt af þjóðinni til að fá að kjósa um þessa tillögu. Þetta verður einungis ráðgefandi og það er enginn að mæla fyrir því hvernig staðið er að því. Það er mjög sérkennilegt. Fyrir utan að það er mjög sérkennilegt að heyra suma hv. stjórnarliða koma hingað og tala um rétt þjóðarinnar þegar í tvígang, bæði í Icesave-málunum og í Evrópusambandsumsókninni, hefur ekki mátt tala við þjóðina. Það er sláandi þegar sömu aðilar eiga í hlut.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann um eitt atriði sem hann kom inn á í ræðu sinni sem vakti athygli mína. Ég kom reyndar inn á það sjálfur í ræðu minni sem ég flutti hér í fyrradag. Það er í sambandi við þingsetningu 1. október þegar forseti lýðveldisins fór yfir þær breytingar sem hann sæi í tillögum stjórnlagaráðs. Sumir hv. þingmenn hafa komið og sagt: Ja, þetta er ekkert í anda þess sem stjórnlagaráð leggur til. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki þurfi að fara sérstaklega yfir þessa hluti, t.d. kaflann sem snýr að forsetanum, þegar hægt er að túlka þá með mismunandi hætti. Þetta þarf auðvitað að vera miklu skýrara þegar mjög færir einstaklingar, hvort heldur það er forseti lýðveldisins eða fulltrúar í stjórnlagaráði, túlka niðurstöðurnar ekki með sama hætti. Þarf þetta ekki að vera meira afgerandi þannig að það liggi klárt fyrir um hvað eigi gera skoðanakönnun?