140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[15:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það dylst engum mikilvægi þess máls sem við ræðum hér, gjaldeyrishöftin og hvernig við getum afnumið þau. Ég er þeirrar skoðunar að af hálfu ríkisstjórnarinnar vanti upp á kraft og ákveðni í því máli. Það má í raun og veru segja að allir ríkisstjórnarfundir ættu að byrja og enda á umræðu um það hvernig við getum afnumið höftin og allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar á þingi ætti að miða að því að forgangsraða í þágu þess. Augljóslega er svo ekki. Það má í raun segja að þessu verkefni hafi allt að því verið útvistað til Seðlabankans og hann sé meira og minna að fást einn við það. Auðvitað er ekki svo og ég geri því ekki skóna að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi ekki áhyggjur af málinu. Ég held að allir séu sammála um alvarleika þess, en við þurfum að setja meiri kraft í það.

Vandinn er að hluta til sá að annar stjórnarflokkanna telur að málið verði ekki leyst nema með því að taka upp aðra mynt og ganga í ESB. Það setur auðvitað mark á allar áætlanir, allar aðgerðir í þessu máli. Og það er ekki hægt að neita því að hinn stjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, hefur elt Samfylkinguna í því efni.

Virðulegi forseti. Tíminn vinnur gegn okkur í þessu máli. Skaðinn af höftunum er mjög mikill og hann fer vaxandi dag frá degi. Höftin grafa undan öllu efnahagslífi og skerða lífskjör þjóðarinnar í bráð og lengd. Það grefur undan lífeyrissjóðakerfinu okkar að geta ekki fjárfest erlendis og breytir líka um leið eðli lífeyrissjóðakerfisins til hins verra að mínu mati, og höftin grafa undan gengi íslensku krónunnar. Þetta er því augljóslega ekki einkamál Seðlabankans. Ég get ekki varist því að telja, og reyndar eru margir mér sammála um það, að áætlun Seðlabankans virðist ekki vera að ganga nægilega vel upp. Þróunin hefur verið á einn veg. Frá Seðlabankanum streyma beiðnir um að herða höftin, herða eftirlitið og herða viðurlögin. Ég kemst ekki hjá því að nefna líka, virðulegi forseti, að vaxtahækkanir Seðlabankans auðvelda okkur ekki viðfangsefnið. Ef hér liggja inni 1.000 milljarðar sem vilja komast út úr landinu sjá menn að hver vaxtahækkun veldur því að vandinn vex.

Margt er auðvitað hægt er að gera en eitt er alveg víst. Ekkert verður gert nema við náum pólitískri sátt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og aðila vinnumarkaðarins um þær leiðir sem færar eru. Þetta er pólitískt vandamál og þetta er tæknilegt vandamál. Sjálfstæðisflokkurinn lagði til strax árið 2009 að skoðaður yrði skoðaður sá möguleiki að þeir sem ættu til dæmis ríkisskuldabréf og vildu komast úr landinu, ættu möguleika á því að breyta slíkum bréfum í bréf í erlendri mynt. Undir þá hugmynd hafa til dæmis Samtök atvinnulífsins nú tekið. Það er gríðarlega mikilvægt að sannfæra markaðinn um að þessi svokallaða hengja fari ekki af stað þegar við lyftum höftunum, vegna þess að ef það gerist myndast líka hætta á því að innstæður Íslendinga í bönkunum fari af stað. Þar er um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða og slíkt gæti valdið allt að því óleysanlegu vandamáli.

Þess vegna þarf að setja fram ýmis varúðartæki sem þarf að vera hægt að grípa til og ýmsar lausnir sem skipta máli aðrar en að fara bara uppboðsleiðina og fjárfestingarleiðina sem Seðlabankinn hefur lagt áherslu á. Því vil ég beina til hæstv. ráðherra nokkrum spurningum. Mundi hann styðja að farið yrði í þá vinnu að skoða hvaða möguleika íslensku bankastofnanirnar hafa til að vinna gegn því að útflæði yrði af innstæðunum yfir í erlenda mynt og hvaða hugmyndir gætu legið þar að baki?

Er hæstv. ráðherra tilbúinn að skoða möguleika á að skattleggja útflæðið og síðan, eins og t.d. hefur komið fram hjá Samtökum atvinnulífsins, að nota þá fjármuni til að bregðast við hækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna? Er ráðherra tilbúinn til að skoða önnur tæki sem hægt er að beita til að ráðast á þá hengju, þ.e. á mismunandi eignarflokka, ekki bara ríkisskuldabréfin eða innstæðurnar heldur líka þá sem snúa að öðrum fjármunum sem vilja komast út úr landinu, t.d. í hinum föllnu bönkum? Síðan og ekki síst er það sem skiptir kannski mestu máli: Ríkissjóður verður að vera rekinn með afgangi vegna þess að fjármögnun á halla hans núna er óeðlilega ódýr. Þetta vita markaðsaðilar og horfa til þessa og það er gríðarlega mikið kappsmál að við náum betri árangri í (Forseti hringir.) ríkisfjármálunum. Það er áhyggjuefni að Seðlabankinn skuli hafa gefið það út að ástæða sé til að ætla og hafa áhyggjur af að í þeim málum sé aukinn slaki.