140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[15:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Upphafsmaður umræðunnar, hv. þm. Illugi Gunnarsson, sagði að afstaða Samfylkingarinnar væri sú að gjaldeyrishöftin yrðu ekki leyst nema með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru og að sú afstaða kæmi í veg fyrir gang í afnámi gjaldeyrishafta. Þetta er rangt. Hitt er ljóst að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru í gegnum aðild auðveldar til muna afnám hafta og er eina raunhæfa leiðin til að losna við aflandskrónuvandann án nokkurra áfalla.

Það er nefnilega í grundvallaratriðum rangt sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði áðan að það myndist einhvers konar skuld íslenska ríkisins eða Seðlabankans við Evrópska seðlabankann í kjölfar upptöku evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu. Með aðild að Evrópusambandinu breytast íslenskar krónur, allar íslenskar krónur, líka aflandskrónur, í evrur án þess að það valdi áfalli fyrir jafnvægi í greiðslujöfnuði milli Íslands og annarra ríkja.

Virðulegi forseti. Þar af leiðandi er ljóst að aflandskrónuvandinn verður miklu, miklu einfaldari úrlausnar með þessari leið. En það er líka rétt að upphafsskrefið í afnámi hafta verður að stíga og það ferli er, eins og kom vel í ljós hjá hv. upphafsmanni umræðunnar, bæði áhættusamt og flókið. Við verðum að vera saman á báti í því verkefni og það þýðir ekki að gera afnám hafta að flokkspólitísku bitbeini. Við verðum, ef við ætlum að komast af stað í það, að sameinast um að taka þetta verkefni burt af þrætusviði stjórnmálanna og standa saman, vegna þess að ómögulegt er að spá fyrir um þróun gengis í kjölfar afnáms hafta og veruleg áhætta er samfara ferlinu.

Þess vegna skiptir mestu máli full samstaða um aga í ríkisfjármálum, jöfnuð í ríkisfjármálum 2014 og að við uppfyllum Maastricht-skilyrðin sem allra fyrst, um það eiga allir flokkar að geta sameinast. Svo skiptir máli, ef menn meina eitthvað með afnámi hafta, að þeir flokkar sem hingað til hafa skilað auðu í framtíðarstefnumörkun um peningamálastefnu, fari að segja hvað eigi að taka við þegar höftum er lokið.