140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[15:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum afnám gjaldeyrishafta og það er ekki síður mikilvægt en margt annað sem rætt er hér. Afnám gjaldeyrishafta er annað mikilvægasta málið sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir á eftir skuldum heimilanna og verðtryggingunni, vegna þess að það er útilokað að leysa það með skynsamlegum hætti áður en skuldahengjuvandi heimilanna, fyrirtækjanna, sveitarfélaganna og ríkissjóðs er lagaður. Nema menn vilji fara hina svokölluðu skiptigengisleið sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur talað fyrir, en hún er róttæk aðferð til að koma þessum málum í höfn með því að skipta út froðueignum og fá í staðinn einhverjar alvörueignir með gjaldfellingu þeirra og halda áfram í eigin gjaldmiðil.

Það sem hefur vantað hér á landi eru einfaldlega vandaðar, óháðar úttektir á leiðum sem mögulega eru til í gjaldmiðilsmálum. Það þýðir ekkert að spyrja Seðlabankann eða fjármálaráðuneytið um þær, það þarf að fá hópa færustu erlendu sérfræðinga sem völ er á, sem munu njóta aðstoðar innlendra aðila. Velta þarf upp öllum leiðum, einhliða upptöku annars gjaldmiðils, upptöku í samstarfi við aðrar þjóðir, nýkrónur með skiptigengisleið, evru með eða án aðildar að Evrópusambandinu og svo þarf að velta upp kostnaðinum af því að halda áfram á sömu braut og hanga eins og hundur á roði á íslenskri krónu sem hefur valdið okkur meira tjóni en flest annað í efnahagssögu þjóðarinnar, halda áfram með gagnslausa peningastefnu Seðlabanka Íslands, sem aldrei hefur gengið eftir, og að fara úr öskunni í eldinn í efnahagsmálum enn einu sinni, og maður spyr sig: Er ekki nóg komið?

Stjórnmálin, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason minntist á, virðast ekki geta leyst þetta mál fremur en svo mörg önnur brýn mál og því þarf að taka það úr höndum stjórnmálamanna og fela sérfræðingum til skoðunar og í framhaldinu af því ætti Alþingi að ræða það.