140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[15:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Nú höfum við búið við gjaldeyrishöft í þrjú og hálft ár. Við fylgjum plani sem var sett fram af Seðlabankanum fyrir rúmu ári og hvorki virðist ganga né reka. Af þeim peningum sem er líklegt að flæði til skamms tíma úr landi við afléttingu gjaldeyrishafta hafa nú um 60 milljarðar verið losaðir með þessu plani Seðlabanka Íslands. Þeir 60 milljarðar nema varla vöxtunum sem eru að safnast upp þannig að það er að safnast í hengjuna, það er að fjúka í snjóhengjuna frægu.

Þess vegna er brýnt að grípa til annarra aðferða en beitt er núna, og mitt mat er að það verði einungis gert með því að allir stjórnmálaflokkar og aðilar vinnumarkaðarins, hvort heldur eru atvinnurekendamegin eða verkalýðsfélagamegin, taki sig saman um þetta stóra verkefni. Komið hafa fram ótal hugmyndir og sumar þeirra hafa verið taldar upp í dag og aðrar hafa farið lægra. Það er komið nóg af hugmyndum. Nú er spurning um að greina þær og hvaða leiðir sé best að fara.

Það er algjörlega augljóst miðað við árangurinn hingað til og þá staðreynd að gjaldeyrishöftin hafa verið til staðar í þrjú og hálft ár að samstaða er nauðsynleg, það þarf einhvers konar þjóðarsátt um þetta mál. Það verður að taka það úr höndum Seðlabankans vegna þess að hann hefur ekki reynst starfi sínu vaxinn, sem er ekki nema von vegna þess að það þarf mjög sterka pólitík á bak við jafnafdrifaríka ákvörðun og að afnema gjaldeyrishöftin.