140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[15:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér áætlun íslenskra stjórnvalda um afnám gjaldeyrishaftanna í framtíðinni, en áætlun um afnám gjaldeyrishafta má ekki valda röskun og óstöðugleika á gengi krónunnar. Því er mikilvægt að sú afnámsáætlun sem stjórnvöld hafa samþykkt og Seðlabankinn vinnur eftir sé sveigjanleg og raski ekki stöðugleika í fjármálakerfinu. Tryggja verður að afnám gjaldeyrishafta komi ekki niður á kjörum almennings og atvinnulífs með hárri verðbólgu og gengisfalli krónunnar.

Það er öllum ljóst að afnám gjaldeyrishafta er ekki á næsta leyti en stjórnvöld byggja áætlanir sínar fyrst og fremst á grunni gjaldeyrisútboða eins og kom fram áðan, en þau hafa farið fram og eru fram undan. Einnig er byggt á fjárfestingarleiðum ásamt skuldabréfaskiptum hjá ríkissjóði í tengslum við afnám haftanna og gert ráð fyrir gjaldi eða skatti á þá fjármuni sem færu úr landi. Ljóst er að þessi áætlun mun alltaf þurfa að taka mið af efnahagslegum skilyrðum svo að hún komi ekki til með að valda gjaldeyrisóstöðugleika í fjármálakerfinu og hugsanlega eyðileggja þann mikla árangur sem náðst hefur í efnahagsstjórn landsins eftir hrunið.

Jafnmikilvægt og það er okkur sem þjóð að geta aftur átt óheft viðskipti á milli landa verður að leggja mikla áherslu á að gætilega verði farið við afnám gjaldeyrishaftanna svo að sá mikli árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum og auknum hagvexti skili sér sem best í bættum lífskjörum almennings og til efnahagslífs og atvinnulífs landsins. Gjaldeyrishöftin eru ill nauðsyn eftir hrunið, enginn hefði kosið sér þau ótilneyddur, og þau munu áfram verða eitt erfiðasta verkefni sem stjórnvöld þurfa að glíma við í framtíðinni.