140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[16:02]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að öllum sé ljóst sem hlýða á þessa umræðu að það er samstaða hér á þinginu um að afnema gjaldeyrishöftin. Það eigum við að gera eins fljótt og óhætt er. Það er hins vegar algjört skilyrði fyrir skjótu afnámi haftanna að við finnum ábyrgar leiðir til að verja hagsmuni almennings í landinu í þeirri aðgerð, verja heimilin fyrir aukaverkunum sem yrðu mikið gengisfall íslensku krónunnar með tilheyrandi verðbólgu og lífskjaraskerðingu fyrir allan almenning, ekki einungis þá sem skulda mikið.

Ég þakka Samtökum atvinnulífsins fyrir frumkvæði þeirra. Það er að sjálfsögðu alltaf lofsvert þegar samtök af þessu tagi leggja fram tillögu til launar á brýnum vandamálum. Þar er lýst í einföldum skrefum tilteknum aðgerðum við afnám hafta og er sjálfsagt að skoða það vandlega. Ég vil þó setja fyrirvara við þá hugmynd að ríkissjóður gefi út skuldabréf sem boðin verði erlendum krónueigendum með tilteknum afslætti innan mjög þröngs tímaramma því að þar með er í reynd verið að bjóða uppi þann dans að þjóðnýta skuldir einkaaðila með stóraukinni skuldsetningu ríkissjóðs sem tekur í ofanálag á sig alla áhættuna af aðgerðinni.

Hitt er annað og verður að leggja miklu áherslu á, að umræðan um afnám hafta hefur öll verið á miklum villigötum. Hún hefur snúist um birtingarmynd sjúkdómsins en ekki hina undirliggjandi meinsemd sem er sú bitra staðreynd að við erum ekki með stöðugan gjaldmiðil í landinu sem nýtur trausts á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ef við værum með traustan gjaldmiðil væru engin gjaldeyrishöft í landinu. En til þess að afnema höftin verðum við að svara tveimur lykilspurningum: Hvernig ætlum við að verja almenning fyrir fyrirsjáanlegri skarpri lækkun krónunnar við afnám hafta? Og hins vegar: Hvaða gjaldmiðlaumhverfi eða peningastefnu ætlum við að bjóða þessum sama almenningi og fyrirtækjunum í landinu þegar höftin hafa verið afnumin?

Ég vil afnema gjaldeyrishöftin en ég er ekki tilbúinn að bjóða upp á það að framselja íslenskan almenning inn í eitthvert tilraunaeldhús Samtaka atvinnulífsins og talsmanna þeirra á Alþingi og stinga síðan höfðinu í sandinn þegar kemur að umræðu um framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar.