140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

staðan á áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta.

[16:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir umræðuna og þau svör sem fram hafa komið. Ég vil segja það strax í upphafi að ég er ósammála hæstv. ráðherra um að hlutirnir gangi eftir áætlun. Ég er þeirrar skoðunar að þetta gangi allt of hægt og að skaðinn fari stigvaxandi.

Seðlabankinn með eykur á vandann vaxtahækkunum sínum vegna þess að þar með stækkar hin margumrædda snjóhengja. Vandinn er sem sagt að aukast.

Vegna þeirra orða sem féllu varðandi útgáfu á ríkisskuldabréfum í erlendri mynt horfa menn fyrst og fremst til þeirra sem eiga núna ríkisskuldabréf, sem eru skuldir ríkisins í íslenskum krónum, að þeim verði breytt í bréf sem verða til langs tíma, 15–20 ára, og verði þá í erlendri mynt til þess að hægt sé að byggja upp útflæðið þannig að það sé fyrirsjáanlegt.

Ég tel líka að í hugmyndum Samtaka atvinnulífsins um að mæta þeim hækkunum á verðbólgunni sem leiða til hækkunar á verðtryggðum lánum með því að greiða til baka eða auka vaxtagreiðslur, að til þess að greiða það eigi að nota þær tekjur sem fást með því að setja á útgönguskatt. Það skiptir máli að hafa það í huga í því efni.

Það sem skiptir mestu máli er að ríkisstjórnin og Alþingi taki þetta mál og geri það að forgangsmáli sínu. Þetta er ekki mál Seðlabankans, þetta er mál þingsins og ríkisstjórnarinnar.

Það er rétt sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson benti á, það þarf að ná þjóðarsátt um það. Það er sennilega ofnotaðasta orðið á undanförnum missirum en í þessu máli verður að nást þjóðarsátt. Um það verður ríkisstjórnin að hafa forustu, þ.e. sátt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, allra aðila vinnumarkaðarins, af því að sú aðgerð að afnema höftin er einhver sú mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir og jafnframt ein sú erfiðasta. Það verður ekki gert með því að fara áfram þá leið sem Seðlabankinn hefur farið, því miður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)