140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var minni hluti þingmanna, 30 þingmenn, sem ákvað skipun stjórnlagaráðs þvert á dóm Hæstaréttar á sínum tíma. Það var umdeild ákvörðun og veikti mjög hugmyndir ríkisstjórnarinnar að því hvernig haga skyldi vinnu við breytingar á stjórnarskránni. Auðvitað átti að endurtaka atkvæðagreiðsluna ef einhver alvara var í þessari vegferð.

Að mati margra fræðimanna og leikmanna einnig uppfylla tillögur stjórnlagaráðs alls ekki grunninn sem hægt er að byggja nýja stjórnarskrá á, að mati margra er það frumvarp sem frá þeim kom ónothæft. Í stað þess að þingið lagfæri þessi stjórnarskrárdrög, skrifi þau upp á nýtt, á núna að senda þau í þjóðaratkvæði. Það er engu líkara en að þeir sem ráða ferð telji sig ekki hafa umboð til að endurskoða tillögur ráðs sem þeir hafa sjálfir skipað og ætli því að setja almenning í þá stöðu að greiða atkvæði um drög sem allir vita að geta aldrei orðið að stjórnarskrá. Spurningarnar sem fólk á að svara í atkvæðagreiðslunni eru í raun platspurningar og virðast miða að þeim eina tilgangi að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og félagar hennar geti varist falli á Alþingi. (Gripið fram í.) Þetta er væntanlega ein dýrasta skoðanakönnun sem hefur verið framkvæmd, allt í þágu einhvers valdabrölts.

Þann 29. mars var málið tekið til umræðu og voru vinnubrögðin þá gagnrýnd mikið, sjálf stjórnarskráin er jú undir. Vinnubrögðin sýna í raun öll virðingu meiri hlutans fyrir skipulagi íslensks samfélags, þ.e. virðingu þeirra fyrir stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta skín svo sem í gegn í mörgum málum. Við getum séð dæmi um það í landsdómsmálinu, við getum séð dæmi um það í fiskveiðistjórninni, rammaáætlun, lögum um Stjórnarráðið og svo birtist það okkur nú.

Má segja að það að ætla að keyra þetta í atkvæðagreiðslu í sumar samhliða forsetakosningum hafi verið fyrir fram dauðadæmt og að nú hafi meiri hlutinn í raun viðurkennt mistök sín með því að gefa það út að þeir vilji að skrifstofa þingsins ráði nokkra lögfræðinga til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs út frá lagatæknilegum forsendum til að undirbúa frumvarp sem lagt verður fyrir þingið síðar. Þetta er eins og að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu úti í miðri á.

Á öðrum vettvangi er slíkri atkvæðagreiðslu hafnað, síðast af hæstv. forsætisráðherra hér í morgun, þegar talað var um hvort ekki væri rétt að stöðva viðræður um aðild að Evrópusambandinu, sem heyrast enn háværar raddir um. Fyrrverandi ráðherra ríkisstjórnarinnar og þingmaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, hefur opnað á þennan möguleika og hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir gaf það út hér í morgun að það væri eðlilegt að kjósa um það mál samhliða næstu alþingiskosningum. Það heyrast sem sagt raddir úr stjórnarliðinu um að eðlilegt sé, áður en þessu ferli lýkur, að halda um það þjóðaratkvæðagreiðslu hvort halda eigi áfram. Deilan virðist nú frekar snúast um hvenær atkvæðagreiðslan verði en rök hæstv. forsætisráðherra eru þau að það sé ekki tímabært, það verði að ljúka þessum viðræðum. Það er hins vegar kjörið tækifæri til að gera það, eins og tillögur hafa komið fram um, samhliða þessari þjóðaratkvæðagreiðslu í haust, ef af henni verður.

Við sjáum veikleika ríkisstjórnarinnar endurspeglast í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem hún virðist eiga í þessa dagana við þingmenn Hreyfingarinnar. Það er áhugavert að lesa yfirlýsinguna sem kom frá þingmönnum Hreyfingarinnar um þau mál sem þau segjast hafa rætt við ríkisstjórnina og helst brenna á þjóðinni, þar á meðal þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs, persónukjör, gagnsæi upplýsinga, tjáningarfrelsi, leiðir til almennra skuldaleiðréttinga, afnám verðtryggingar sem og framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnarkerfisins. Þau virðast ekkert hafa rætt þá fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin kynnti í dag.

Að mati hv. þingmanna Hreyfingarinnar kalla þær aðstæður sem ríkja í samfélaginu á aðgerðir af hálfu stjórnvalda og ábyrga afstöðu minni hlutans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Takist samningar um framgang ofangreindra mála lýsum við okkur reiðubúin að verja ríkisstjórnina vantrausti komi til þess. Við höfum aldrei heitið ríkisstjórninni stuðningi gegn vantrausti en höfum stutt öll góð mál óháð uppruna þeirra.“

Hér sjáum við hvað er að gerast, virðulegi forseti. Þetta verða ein dýrustu atkvæði í sögu lýðveldisins. Kostnaður við þessa þjóðaratkvæðagreiðslu verður sennilega hátt í 300 milljónir og ef það á að tryggja atkvæði þriggja hv. þingmanna Hreyfingarinnar eru þetta um 100 milljónir á atkvæði.

Þessi mál leiða mann óneitanlega að fjárfestingaráætlun fyrir Ísland fyrir árin 2013–2015 sem hæstv. ríkisstjórn kynnti í dag. Mig langar að gera hana að umtalsefni vegna þess að þar endurspeglast í raun sama vandamál ríkisstjórnarinnar og er gagnvart Hreyfingunni í þessu máli nema í því tilfelli á það við um Guðmund Steingrímsson, þingmann Bjartrar framtíðar eins og flokkurinn heitir orðið í dag. Honum er þökkuð þessi fjárfestingaráætlun og er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að hann eigi að taka sæti eða starfa með ráðherranefnd um þessi mál.

Hér er á ferðinni í raun mjög ógeðfelld stefna þar sem verið er að skipta dúsum milli landshluta og til hinna ýmsu samfélagshópa. Þetta er allt í sama dúr og það samkomulag sem verið er að gera við Hreyfinguna á þessum tímapunkti og sýnir okkur hvað ríkisstjórnin er skelfilega veik. Hér er hún reyndar að ávísa fjárfestingum yfir á næsta kjörtímabil, hún er að reyna að moka yfir það getuleysi sem við höfum orðið vitni að á þessu kjörtímabili og ætlar að setja ábyrgðina yfir á næstu ríkisstjórn. Það endurspeglast líka í þessu mjög augljóslega hvernig ríkisstjórnarsamstarfs þessi ríkisstjórn horfir til eftir næstu kosningar. Við sjáum að það er verið að reyna að ná samkomulagi við Hreyfinguna og við sjáum á þessari fjárfestingaráætlun að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson á að vera aðaldriffjöðurin. Þetta er næsta ríkisstjórnarsamstarf. Ríkisstjórnin er að brúa bil til þessara minni flokka, þessara nýju framboða, til að byggja upp eitthvert fjölflokkaríkisstjórnarmynstur eftir næstu kosningar.

Það sem er ógeðfellt í þessari fjárfestingaráætlun, virðulegi forseti, er að hún er öll í fyrirvörum og í henni eru dulbúnar hótanir til almennings í landinu, þ.e. þessar fjárfestingar fara ekki af stað nema samþykkt verði fiskveiðistjórnarfrumvörp sem nú liggja fyrir þinginu. Einnig eru fyrirvarar vegna fjárfestinga og verkefna sem verða fjármögnuð af eignasölu. Það vantar ekki upp á að þessu sé skipt í flokka. Hér á að setja á þremur árum um 17 milljarða í fjárfestingar og verkefni og fjármagna með sérstöku veiðigjaldi ef fiskveiðifrumvörpin verða samþykkt. Hér er atvinnulífinu stillt upp við vegg og almenningi um allt land, sem hefur risið upp gegn þessum gölluðu hugmyndum ríkisstjórnarinnar í fiskveiðistjórnarmálum, og sagt: Ef þið viljið þetta ekki verða engar fjárfestingar. Þetta er sýn þessarar ríkisstjórnar. Það er verið að stinga dúsum upp í fólk, það er verið að kaupa fólk og fyrirtæki til liðs við sig með mjög ósmekklegum hætti.

Þetta er í sama dúr og stjórnarskrármálið, alveg sama dúr. Það er verið að kaupa menn til liðs við sig á þessum nótum. Þessi fjárfestingaráætlun á að skila um 40 milljörðum á þessu tímabili í auknar fjárfestingar. Á sama tíma fjölluðum við um rammaáætlun í þingnefnd í dag sem er búið að mæla fyrir á þingi. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir, samkvæmt skýrslu GAMMA, að þeir frestir eða tafaleikir sem verða á framkvæmdum, samkvæmt rammaáætlun, samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar, muni á næstu fjórum árum kosta okkur 270 milljarða í fjárfestingum, fimm þúsund ársverk. Það er fyrir utan afleidd störf. Þessi fjárfestingaráætlun á að skapa fjögur þúsund ársverk. Í þessu endurspeglast forgangsröð núverandi ríkisstjórnar. Hún er með þann möguleika að fara þá skynsamlegu leið að leysa sjávarútvegsmálin, laða að fjárfestingu á þeim vettvangi. Nei, það á að taka úr greininni og setja í samfélagsverkefni þannig að fjárfestingar munu dragast mikið saman í sjávarútvegi. Á hinn bóginn á að loka fyrir fjárfestingar í orkufrekum iðnaði með sömu afleiðingum. Allt er þetta gert til að kaupa til fylgilags við sig framboð flokka eins og hv. þingmanns Guðmundar Steingrímssonar og hv. þingmanna Hreyfingarinnar. Það er ógeðfellt, virðulegi forseti, að verða vitni að þessu.

Fræðimenn hafa gefið vinnubrögðum í kringum endurskoðun á stjórnarskránni falleinkunn. Margir þeirra taka undir með Sigurði Líndal lagaprófessor, einum helsta fræðimanni okkar á þessu sviði. Hann segir m.a. að menn verði fyrst að skilgreina núverandi stjórnarskrá áður en þeir ákveði að breyta henni. Margt sé mjög gott við hana. Til dæmis er búið að breyta mörgu í henni frá 1874. Þetta sé því ekki sama stjórnarskráin þar sem lítið sé eftir af þeirri upphaflegu. Hann bendir á að nýbúið er að breyta mannréttindakafla hennar. Hann óttaðist mjög niðurstöður þeirrar nefndar sem skipuð var af þinginu, að hún yrði pólitísk og í hana veldist fólk sem hefði ekki nægilega þekkingu á stjórnarskránni og notkun hennar. Þetta hefur gengið eftir, áhyggjur þessa fræðimanns hafa gengið eftir og endurspeglast í umsögnum okkar helstu fræðimanna í dag um að grunnurinn sem er lagður fyrir sé ónothæfur. Hann telur, ásamt öðrum, að umræður um heildarendurskoðun á stjórnarskránni hafi fyrst og fremst komið upp vegna hrunsins sem hún hafi þó ekkert haft með að gera, það hafi ekkert verið stjórnarskránni að kenna að hér varð hrun.

Það er auðvitað magnað að áherslur og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar skuli vera með þeim hætti að við séum að brölta í mikilli óeiningu og ágreiningi um þetta mikilvæga mál. Ég hefði haldið að á þessum tímapunkti ættu menn frekar að einbeita sér að faglegri og fræðilegri vinnu við að útfæra einhverjar breytingar sem sæmileg samstaða gæti náðst um í stað þess að flækja ferlið eins og nú er verið að gera.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði fyrir stuttu, með leyfi forseta:

„Við erum með tillögu stjórnlagaráðsins, það hefur komið fram gagnrýni um að það séu einhver lagatæknileg atriði sem þurfi að laga, það þurfi líka að laga greinargerðina, og við ætlum nú að fá fólk sem hefur sérþekkingu í lögfræði til þess að yfirfara þessa tillögu.“

Sem betur fer tókst okkur í stjórnarandstöðunni að koma í veg fyrir það að menn færu í flaustursskap að láta kjósa um svo óundirbúið mál, sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir tekur nú undir, samhliða forsetakosningum. Það tókst þó kannski að bjarga einhverju fyrir horn, svo ég noti bara hennar eigin orð. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði, með leyfi forseta:

„Ég skora á þingmenn að vera ekki hræddir við fólkið í landinu …“

Hún skorar á okkur þingmenn að vera ekki hrædd við að leggja þessi mál í dóm þjóðarinnar. En hverju svarar hún þegar við ræðum það hvort við eigum að leggja það í dóm þjóðarinnar að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum í í aðildarviðræðum við ESB? Nei, þá er það ekki tímabært, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Hún er sennilega hrædd við þjóðina í þeim efnum, enda er full ástæða til fyrir Evrópusinna og þá sem vilja halda þessum aðildarviðræðum áfram með öllum tilheyrandi kostnaði sem því fylgir. Það er ástæða fyrir þá að vera hræddir við þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að það mál yrði örugglega fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því vex samt fiskur um hrygg að þannig skuli fara með þetta mál. Þar má aftur nefna hv. þm. Árna Pál Árnason, hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur og einn helsta álitsgjafa um Evrópumál, Eirík Bergmann, sem sagði m.a., með leyfi forseta:

„Ef Íslendingar vilja ekki einu sinni halda viðræðunum áfram þá munu þeir fella samninginn hvort eð er þegar þar að kemur. En ef þeir samþykkja að halda áfram fæst aukinn lýðræðislegur stuðningur við aðildarferlið. Og þar með mun sterkara umboð…“

Hann er sem sagt fylgjandi því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu með málið.

Árið 2005, þegar vinna hófst við endurskoðun stjórnarskrárinnar eftir eðlilegum leiðum, kröfðust þingmenn Samfylkingarinnar neitunarvalds í nefndinni. Við þeim óskum var orðið þó að það mundi stuðla að lengri málsmeðferð. En það er ekki stíll þessara ríkisstjórnarflokka að vera samkvæmir sjálfum sér og nú er okkur brigslað um málþóf þegar troða á vanreifuðum og illa undirbúnum hugmyndum í gegnum Alþingi.

„Auðlindamálin eru pólitískasta viðfangsefnið við endurskoðunina“, svo ég vitni í orð Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Að því leyti er rétt að hafa það sem forgangsverkefni. Þá spyrja menn: Er það ekki pólitískt óleysanlegt mál?“

Hann vill halda því fram að þegar skyggnst sé undir yfirborð umræðunnar fari því fjarri. Þetta sé sennilega mest rædda álitaefnið.

„Í áliti auðlindanefndar undir forystu Jóhannesar Nordals voru fyrir áratug settar fram hugmyndir um stjórnarskrárbindingu auðlindaákvæðis. Á bak við þær var samstaða allra þáverandi þingflokka. Undirnefnd stjórnarskrárnefndarinnar frá 2005 undir forystu Bjarna Benediktssonar“ — núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins — „ræddi svipaða lausn.“

Fyrir kosningarnar 2007 var til orðið samkomulag að texta að auðlindaákvæði á milli flokka, en það þótti óráð að setja það fram fyrir kosningar, málinu væri ekki fulllokið.

Það eru mörg önnur álitamál sem lengra voru komin í þessari vinnu og hefði verið nær að reyna að byggja faglega og eðlilega vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á þeirri miklu vinnu sem hafði farið fram.

Hæstv. forsætisráðherra segir að henni finnist mjög sérkennilegt að öll þau ár sem hún hefur setið í ríkisstjórn hafi það alltaf verið sjálfstæðismenn sem hafi brugðið fæti fyrir það að við höfum getað þokast eitthvað áfram í stjórnarskrármálinu og það viti allir sem vilja vita að þingið hefur verið ófært um að leysa þetta mál sjálft í marga áratugi.

Þessar fullyrðingar hæstv. forsætisráðherra standast ekki miðað við það sem ég fór yfir áðan. Auðvitað reynum við sjálfstæðismenn og aðrir í stjórnarandstöðunni, þingmenn Framsóknarflokksins, að koma í veg fyrir svona endaleysur, sóun fjármuna með röngum áherslum á erfiðum tímum. Það er okkar verkefni að taka svona leikaraskap út af dagskrá sem lítil alvara virðist vera að baki, valdabrölt fólks sem setur eigin hagsmuni ofar þjóðarhagsmunum. (Forseti hringir.) Nær væri að reyna víðtækt samráð, virðulegi forseti, eins og gert er hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við í þessum efnum en velja alltaf leið ófriðar þegar leið sátta getur verið í boði.